Fjölmiðla- og fjar­skipta­fyrir­tækið Sýn hefur gengið frá kaupréttar­samningi við allt fastráðið starfs­fólk sam­stæðunnar um kaup á hlutum í félaginu.

Sam­kvæmt kaupréttaráætluninni, sem stjórn félagsins samþykkti í apríl, nær kaupréttur til allra fastráðinna starfs­manna Sýnar og annarra félaga í sam­stæðunni.

Í Kaup­hallar­til­kynningu Sýnar segir að mark­mið áætlunarinnar sé að tengja hags­muni starfs­fólks við af­komu og langtíma­mark­mið félagsins og hlut­hafa þess.

„Kaupréttur hvers kaupréttar­hafa ávinnst í tveimur áföngum á tveimur árum frá gerð kaupréttar­samnings. Kaup­verð hluta er vegið meðal­verð í við­skiptum með hluta­bréf félagsins síðustu tíu við­skipta­daga fyrir samnings­dag, sem er 22. nóvember 2024, eða kr. 30,62 hver hlutur,“ segir í Kaup­hallar­til­kynningu Sýnar.

Alls tóku 325 starfs­menn sam­stæðunnar þátt sem sam­svarar allt að 5.306.989 hlutum á ári, eða 10.613.978 hlutum fyrir bæði árin, miðað við 100% nýtingu kauprétta.

Áætlaður kostnaður Sýnar vegna kaupréttar­samninganna er um 61,1 milljón.

Um miðjan mánuð var greint frá því að gengið hefði verið frá kaupréttar­samningnum við for­stjóra og fram­kvæmda­stjórn Sýnar.

Her­dísi Dröfn Fjeld­sted, for­stjóri Sýnar, var veittur kaupréttur að sam­tals 2.000.000 hlutum. Fram­kvæmda­stjórum var veittur kaupréttur að 505.000 hlutum hver.

Heildar­kaupréttur for­stjóra og fram­kvæmda­stjórnar náði til 5.535.000 hluta eða sem sam­svarar um 2,24% af út­gefnu hluta­fé félagsins.

Heildar­kostnaður vegna kaupréttar­samninganna við fram­kvæmda­stjórn og for­stjóra er áætlaður um 64,7 milljónir.