Fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækið Sýn hefur gengið frá kaupréttarsamningi við allt fastráðið starfsfólk samstæðunnar um kaup á hlutum í félaginu.
Samkvæmt kaupréttaráætluninni, sem stjórn félagsins samþykkti í apríl, nær kaupréttur til allra fastráðinna starfsmanna Sýnar og annarra félaga í samstæðunni.
Í Kauphallartilkynningu Sýnar segir að markmið áætlunarinnar sé að tengja hagsmuni starfsfólks við afkomu og langtímamarkmið félagsins og hluthafa þess.
„Kaupréttur hvers kaupréttarhafa ávinnst í tveimur áföngum á tveimur árum frá gerð kaupréttarsamnings. Kaupverð hluta er vegið meðalverð í viðskiptum með hlutabréf félagsins síðustu tíu viðskiptadaga fyrir samningsdag, sem er 22. nóvember 2024, eða kr. 30,62 hver hlutur,“ segir í Kauphallartilkynningu Sýnar.
Alls tóku 325 starfsmenn samstæðunnar þátt sem samsvarar allt að 5.306.989 hlutum á ári, eða 10.613.978 hlutum fyrir bæði árin, miðað við 100% nýtingu kauprétta.
Áætlaður kostnaður Sýnar vegna kaupréttarsamninganna er um 61,1 milljón.
Um miðjan mánuð var greint frá því að gengið hefði verið frá kaupréttarsamningnum við forstjóra og framkvæmdastjórn Sýnar.
Herdísi Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar, var veittur kaupréttur að samtals 2.000.000 hlutum. Framkvæmdastjórum var veittur kaupréttur að 505.000 hlutum hver.
Heildarkaupréttur forstjóra og framkvæmdastjórnar náði til 5.535.000 hluta eða sem samsvarar um 2,24% af útgefnu hlutafé félagsins.
Heildarkostnaður vegna kaupréttarsamninganna við framkvæmdastjórn og forstjóra er áætlaður um 64,7 milljónir.