Að sögn Jóns Daníelssonar, prófessors í hagfræði við London School of Economics og forstöðumanns rannsóknaseturs um kerfisáhættu í fjármálakerfinu, er það víðtækur misskilningur að hægt sé að mæla áhættu fjármálakerfisins og líkir hann því við áhættumæli sem sé stungið inn í fjármálakerfið til að mæla áhættuna.

Áhættumælirinn sem sé notaður til að stjórna fjármálakerfinu mæli miklu verr en fólk skyldi ætla, sem sé hluti þeirrar sýndarstjórnunar sem nýútkomin bók hans, The Illusion of Control, fjallar um. Verið sé að mæla ranga hluti.

„Ég hef, ásamt samstarfsmönnum mínum, skipt áhættu innan fjármálakerfisins í utanaðkomandi áhættu og áhættu sem kemur innan úr kerfinu, kerfislæga áhættu. Þegar reynt er að stjórna fjármálakerfinu er hins vegar almennt litið á það sem svo að áhættan komi utan frá.“

Þessi ímyndaði áhættumælir, sem fólk nýti þegar það mæli utan að komandi áhættu, byggi á þeirri tölfræðilegu forsendu að okkar hegðun hafi ekki áhrif á áhættuna. Þegar komi að kerfislægri áhættu sem leiði af hegðun fólks sé ekki hægt að mæla hana – samkvæmt skilgreiningu. Það sé grundvallaratriðið í þessari sýndarstjórnun.

„Við höldum að við séum að mæla eitthvað af því við erum með mælitæki en við erum ekki að mæla neitt sem skiptir máli. Aftur á móti teljum við okkur hafa stjórn, af því að við höfum þessar mælingar.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.