Forstjóri Skaga, Haraldur Þórðarson, segir að ef samruni Arion banka og Kviku banka verði að veruleika muni „áberandi áskorandi“ hverfa af fjármálamarkaðnum. Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu Skaga og gera má ráð fyrir að hann vísi þar til Kviku banka.

„Skagi hefur verið virkur þátttakandi í þróun á fjármálamarkaði og við teljum að talsverð tækifæri séu fólgin í stöðu okkar í þessu umhverfi, bæði hvað varðar innri- og ytri vöxt, ekki síst ef samruna stærri aðila verða sett skilyrði sem munu þjóna því markmiði að efla aðra keppinauta á markaðnum,“ segir Haraldur.

Kvika banki samþykkti þann 6. júlí síðastliðinn að hefja samrunaviðræður við Arion banka.

Talið hefur verið að við formlegar samrunaviðræðna milli Arion og Kviku yrði mögulega horft til þess að Kvika banki myndi selja frá sér eignastýringastarfsemi sína til að liðka fyrir samþykki Samkeppniseftirlitsins en Arion banki hefur verið með leiðandi stöðu á þeim markaði.

Skagi, móðurfélag VÍS og Fossa fjárfestingarbanka, hefur verið nefndur sem mögulegur kaupandi Kviku eignastýringar. Skagi hefur lýst yfir áhuga á ytri vexti ef slík tækifæri eru til staðar, þar á meðal í eignastýringu.

Haraldur hefur talað um tækifæri fyrir Skaga vegna mögulegrar samþjöppunar á íslenska fjármálamarkaðnum.

Á uppgjörsfundi í lok febrúar, nokkrum dögum eftir að Arion óskaði eftir samrunaviðræðum við Íslandsbanka, sagðist Haraldur að eiga erfitt með að sjá að félaginu verði ekki boðin þátttaka í samtali um mögulega samþjöppun á markaðnum.