Gréta María Grétarsdóttir hefur verið ráðin forstjóri Heimkaupa, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Pálmi Jónsson, sem hefur gegnt stöðu forstjóra, mun starfa áfram hjá Heimkaupum og sinna netverslun fyrirtækisins.
Þá tekur rekstur Heimkaupa breytingum þar sem allar einingar sem snúa að verslunarrekstri Orkunnar verða seldar til Heimkaupa. Þar undir falla:
- 9 verslanir undir merkjunum 10-11, Extra og Orkunnar
- 7 apótek Lyfjavals, þar af 4 með bílalúgum
- 8 bakarí Brauð & Co, 38% hlutur
- Veitingarekstur Gló auk eignarhlutar í Clippers sem rekur Sbarro
Skel fjárfestingarfélag, móðurfélagi Orkunnar, á 33% hlut í Wedo, móðurfélag Heimkaupa. Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljar, tók sæti í stjórn Wedo eftir að fjárfestingarfélagið jók hlut sinn í félaginu í árslok 2021.
Fyrr í dag var greint frá því að Gréta María hefði sagt starfi sínu lausu sem forstjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Adventures. Hún hafði þar áður starfað sem framkvæmdastjóri nýsköpunar, samfélagsábyrgðar og fjárfestatengsla hjá Brimi og var framkvæmdastjóri Krónunnar á árunum 2018-2020.
„Ég er afar stolt af því að fá tækifæri til að leiða þetta nýja afl á smásölumarkaði sem verður til með sameiningu þessara félaga. Vörumerkin eru margvísleg og hafa öll sína styrkleika og með því að setja þau undir sama hatt verður hægt að ná fram auknum slagkrafti og hagkvæmni. Við munum svo á næstu misserum kynna til leiks spennandi nýjungar á smásölumarkaði,“ er haft eftir Grétu Maríu.
Jón Ásgeir: Ætlum okkur stóra hluti með þetta félag
Jón Ásgeir segist í tilkynningunni telja mikil tækifæri vera á smásölumarkaðnum fyrir nýjan aðila „með skýrar áherslur og sterkt bakland“.
„Að félaginu standa hluthafar með mikla reynslu af smásölu og verslunarrekstri og við ætlum okkur stóra hluti með þetta félag. Það er frábært að fá Grétu Maríu til liðs við okkur með sína reynslu og þekkingu og gefur okkur byr undir báða vængi. Við viljum auka samkeppni, með tilheyrandi ávinningi fyrir neytendur,“ segir Jón Ásgeir.