Samstæða Bláa Lónsins tapaði 829 milljónum króna á síðasta ári en árið áður nam hagnaður samstæðunnar tæplega 2,8 milljörðum króna. Jarðhræringar á Reykjanesi settu enn frekar mark á starfsemina í fyrra heldur en árið 2023, að því er kemur fram í ársreikningi.
Tekjur samstæðunnar námu 17,2 milljörðum, samanborið við 20,9 milljarða árið áður. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 1,4 milljörðum en var 5,8 milljarðar árið 2023.
„Sex eldgos urðu á árinu í nágrenni Bláa Lónsins sem stóðu samtals í 121 dag. Rýma þurfti starfsstöðvar félagsins í Svartsengi í hvert sinn sem gos hófst og stóðu lokanir vegna þeirra í mislangan tíma. Starfsfólk félagsins vann þrekvirki við að halda starfseminni gangandi við algjörlega fordæmalausar aðstæður, sem sést meðal annars af því að einungis þurfti að loka baðstaðnum í Svartsengi í samtals 71 dag en hótelunum í 76 daga,” segir í ársreikningi.
Bláa Lónið stefnir á skráningu á hlutabréfamarkað á næsta ári, ef markaðsaðstæður og ytri aðstæður leyfa. Þetta kom fram í viðtali við Grím Sæmundsson, forstjóra og stærsta eiganda Bláa Lónsins, í hlaðvarpi Þjóðmála.
Bláa Lónið keypti 13% eignarhlut í Kerlingarfjöllum ehf. en fyrir áttu Íslenskar Heilsulindir ehf. 86,3% í félaginu og átti samstæðan því 99,3% hlutafjár í Kerlingarfjöllum ehf. í árslok 2024.
Í skýrslu stjórnar kemur fram að í fyrra hafi áfram verið unnið að metnaðarfullum þróunarverkefnum innan samstæðunnar. Í byrjun júlí 2023 hafi rekstur í nýrri og glæsilegri aðstöðu í Kerlingarfjöllum hafist og árið 2024 því fyrsta heila rekstrarár félagsins. Í Kerlingarfjöllum standi gestum til boða fjölbreytt úrval gistingar, auk veitingasölu, heilsulindar og fjölbreyttrar afþreyingar. Undirbúningur að uppbyggingu hótels, baðstaðar og gestastofu í Þjórsárdal standi yfir. Jarðvegsframkvæmdir hafi hafist á árinu og ráðgert að byggingaframkvæmdir hefjist af krafti í ár og standa vonir til þess að rekstur hefjist árið 2028.
Eignir Bláa Lónsins námu 60,1 milljarði króna í lok síðasta árs og eigið fé 32 milljörðum.
Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.