Fiskveiðahlutafélagið Venus, sem er í jafnri eigu systkinanna Kristjáns Loftssonar og Birnu Loftsdóttur, tapaði 21 milljón króna í fyrra samanborið við 1.466 milljóna króna hagnað árið áður.

Venus er stærsti hluthafi Hvals hf., sem Kristján stýrir, með 42,4% eignarhlut sem var bókfærður á 10,7 milljarða króna í lok síðasta árs.

Tap Venusar má rekja til þess að hlutdeild í afkomu í afkomu Hvals var neikvæð um ríflega 737 milljónir króna, eða tæplega hundrað milljónir þegar tekið er tillit til móttekins arðs upp á 637 milljónir.

Ekki er búið að birta ársreikning Hvals fyrir árið 2024 á vef fyrirtækjaskrár Skattsins. Hvalur hagnaðist um 3,5 milljarða króna á reikningsárinu 2023.

Hvalur er langstærsti hluthafi Hampiðjunnar með 36,6% hlut sem er um 27 milljarðar króna að markaðsvirði. Þá er Hvalur ellefti stærsti hluthafi Arion banka með 2,6% hlut sem er tæplega 6,4 milljarðar að markaðsvirði.

Hvalur er einnig stór hluthafi í Alvotech með 0,35% hlut sem er yfir einn milljarður að markaðsvirði, á yfir eitt prósent hlut í Amaroq, og átti 0,3% hlut í Marel áður en félagið sameinaðist JBT.

Eignir Venusar, sem er skuldlaus, voru bókfærðar á 10,8 milljarða króna í lok árs 2024. Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði arður að fjárhæð 510 milljónir króna í ár, en til samanburðar greiddi Venus út 620 milljónir í fyrra.