Hagnaður Eim­skips dróst saman um 36% á milli ára en fé­lagið skilaði 54,5 milljónum evra hagnaði í fyrra sem sam­svarar rúm­lega 8,1 milljarði króna á gengi dagsins.

Í árs­upp­gjöri fé­lagsins segir að rekstrar­niður­staðan á fjár­hags­árinu hafi verið við­unandi þrátt fyrir snarpan við­snúning í markaðs­að­stæðum á milli ára en fé­lagið skilaði 85,3 milljón evru hagnaði árið 2022.

Tekjur fé­lagsins á fjár­hags­árinu námu 827,5 milljónum evra sem sam­svarar um 123 milljörðum á gengi dagsins en er lækkun um 243,1 milljónir evra eða 22,7% saman­borið við árið 2022.

Hagnaður fé­lagsins á fjórða árs­fjórðungi hafði þar mikil á­hrif en hagnaður Eim­skips dróst saman um rúm 61% á fjórðungnum og fór úr 21,8 milljónum evra árið 2022 í 8,4 milljón evrur í fyrra.

„Við erum á­nægð með af­komu ársins 2023 en aftur á móti voru niður­stöður fjórða árs­fjórðungs undir okkar væntingum, sér­stak­lega ef litið er til á­ætlana­siglinga. Magn í á­ætlana­siglingum hélt á­gæt­lega velli í fjórðungnum og lækkaði einungis um 2%, en helsta á­stæða lægri af­komu var sú gjör­breyting í Trans-At­lantic flutnings­verðum sem átti sér stað á árinu 2023,“ segir Vil­helm Már Þor­steins­son, for­stjóri Eim­skips í upp­gjörinu.

Greiða út 3,7 milljarða í arð

Rekstrar­kostnaður fé­lagsins lækkaði einnig á milli ára og fór úr 704,2 milljónum evra í 203,4 milljónir evra. Í upp­gjöri fé­lagsins segir að þetta sé einkum vegna lægri kostnaðar við að­keypta flutnings­þjónustu og lægra olíu­verðs.

EBITDA rekstrar­hagnaður nam 123,4 milljónum í fyrra saman­borið við 163,1 milljón árið 2022.

Stjórn fé­lagsins mun leggja til við aðal­fund, sem haldinn verður 7. mars 2024, að greiddur verði út arður sem nemur u. þ. b. 25 milljónum evra, eða um 3,7 milljörðum króna á gengi dagsins, fyrir fjár­hags­árið 2023, sem er í­gildi 46% af hagnaði eftir skatt.

Úflutningsmagn frá Íslandi óbreytt

Að mati fé­lagsins skiluðu gáma­siglingar góðri af­komu þrátt fyrir að markaðs­að­stæður í Trans-At­lantic hafi breyst veru­lega og valdið mikilli lækkun flutnings­verða frá fyrra ári þegar al­þjóð­leg verð voru mjög há.

„Magn í gáma­siglingum minnkaði lítil­lega milli ára, einkum vegna minna magns í Trans-At­lantic flutningum á sama tíma og magn á öðrum flutnings­leiðum breyttist lítið. Inn­flutnings­magn til Ís­lands hélst sterkt út árið þökk sé um­svifum í hag­kerfinu og ríkri á­herslu á hátt þjónustu­stig,“ segir í upp­gjöri fé­lagsins.

Þá hélst út­flutnings­magn frá Ís­landi svipað milli ára þrátt fyrir að það hafi verið undir væntingum vegna minni fram­leiðslu á eldis­laxi og iðnaðar­vöru en gert hafði verið ráð fyrir.

„Í byrjun árs sáust fyrstu merki um lækkun í Trans-At­lantic flutnings­verðum og á öðrum og þriðja árs­fjórðungi lækkuðu verðin mjög skarpt áður en þau náðu jafn­vægi á síðasta árs­fjórðungi 2023. Tekjur í Trans-At­lantic eru stærsta ein­staka á­stæða lækkunar í EBITDA rekstrar­hagnaði á milli ára.“

Frysti­flutnings­kerfið í Noregi skilaði lægri af­komu en árið 2022, einkum vegna minni bol­fisk­kvóta og lægri meðal­flutnings­verða, sam­hliða veikingu norsku krónunnar gagn­vart evru frá fyrra ári.

„Það er mikil­vægt að rifja upp að á árunum 2021 og 2022 hækkuðu al­þjóð­leg flutnings­verð gríðar­lega vegna þeirra truflana sem heims­far­aldurinn olli á að­fanga­keðjum heimsins en verð á flestum leiðum hófu að lækka hratt um mitt ár 2022. Í til­felli Trans-At­lantic byrjuðu verðin hins vegar ekki að lækka fyrr en í byrjun árs 2023 og í lok þriðja árs­fjórðungs voru þau komin á svipaðan stað og fyrir heims­far­aldurinn. Ó­um­flýjan­lega hafði þetta mikil á­hrif á af­komu á­ætlana­siglinga saman­borið við me­t­árið 2022, þar sem stór hluti af rekstrar­kostnaði siglinga­kerfisins fylgir ekki tekjum heldur byggist á þeim eignum og inn­viðum sem standa undir siglinga­kerfinu,“ segir Vil­helm.

Nýfjárfesting Eimskips jókst á árinu og fór úr 9,7 milljónum evra árið 2022 í 17,8 milljónir evra.

Stærsta einstaka verkefnið á árinu var bygging á nýju vöruhúsi, frystigeymslu og höfuðstöðvum í Færeyjum. Framkvæmdin verður lokið í ár samkvæmt uppgjöri.

Næststærsta fjárfesting ársins var sjálfvirkt gámahlið í Sundahöfn, en það verkefni hófst árið 2022 og lauk á fjórða ársfjórðungi 2023.

Nýjar umhverfisreglur munu hafa áhrif

Að sögn Vil­helms teiknaði Eim­skip upp breytingar á siglinga­kerfinu um leið og fyrstu merki urðu sýni­lega um lækkun flutnings­verða í upp­hafi ársins 2023.

„Mark­mið breytinganna voru skýr frá byrjun: að lækka kostnað, minnka elds­neytis­notkun og draga úr losun gróður­húsa­loft­tegunda á­samt því að tryggja á­reiðan­lega og góða þjónustu. Að breyta kerfi af þessari stærðar­gráðu og flækju­stigi er ekki ein­falt verk en við inn­leiddum fyrsta fasa breytinganna í maí 2023 og nutum á­vinningsins hluta úr árinu. Seinni fasi breytinganna var kynntur í lok nóvember og verður inn­leiddur í lok febrúar á þessu ári. Það var ekki einungis tekju­sam­dráttur vegna breyttra markaðs­að­stæðna sem hvatti okkur af stað í þetta verk­efni, heldur erum við jafn­framt að bregðast við nýjum um­hverfis­reglu­gerðum svo sem CII reglu­gerð Al­þjóða Siglinga­mála­stofnunarinnar og inn­gildingu skipa­flutninga í ETS kerfi Evrópu­sam­bandsins.“

Vil­helm segir jafn­framt að um miðjan desember hófst tíma­bil mikilla verð­sveiflna þegar Suez-skurðurinn lokaðist nánast fyrir al­mennri um­ferð vegna á­rása her­skárra hópa á flutninga­skip.

„Þessi al­var­lega staða hefur aukið hring­ferðar­tíma flutninga­skipa og gáma milli Asíu og Evrópu sem hefur leitt til skarpra hækkana á flutnings­leiðum tengdum Asíu. Ný­lega hafa á­hrif þessara at­burða byrjað að koma fram í hækkunum á verðum á ó­tengdum flutninga­leiðum, til dæmis Trans-At­lantic, enda hefur þessi staða raskað jafn­vægi í flutninga­keðjum og dregið um­tals­vert úr af­kasta­getu í flutnings­kerfi heimsins. Hvernig þessir al­var­legu at­burðir þróast getur haft á­hrif á horfur fram undan fyrir al­þjóð­lega hluta starf­semi okkar en heilt yfir erum við nokkuð bjart­sýn,“ segir Vil­helm.