Hagnaður Eimskips dróst saman um 36% á milli ára en félagið skilaði 54,5 milljónum evra hagnaði í fyrra sem samsvarar rúmlega 8,1 milljarði króna á gengi dagsins.
Í ársuppgjöri félagsins segir að rekstrarniðurstaðan á fjárhagsárinu hafi verið viðunandi þrátt fyrir snarpan viðsnúning í markaðsaðstæðum á milli ára en félagið skilaði 85,3 milljón evru hagnaði árið 2022.
Tekjur félagsins á fjárhagsárinu námu 827,5 milljónum evra sem samsvarar um 123 milljörðum á gengi dagsins en er lækkun um 243,1 milljónir evra eða 22,7% samanborið við árið 2022.
Hagnaður félagsins á fjórða ársfjórðungi hafði þar mikil áhrif en hagnaður Eimskips dróst saman um rúm 61% á fjórðungnum og fór úr 21,8 milljónum evra árið 2022 í 8,4 milljón evrur í fyrra.
„Við erum ánægð með afkomu ársins 2023 en aftur á móti voru niðurstöður fjórða ársfjórðungs undir okkar væntingum, sérstaklega ef litið er til áætlanasiglinga. Magn í áætlanasiglingum hélt ágætlega velli í fjórðungnum og lækkaði einungis um 2%, en helsta ástæða lægri afkomu var sú gjörbreyting í Trans-Atlantic flutningsverðum sem átti sér stað á árinu 2023,“ segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips í uppgjörinu.
Greiða út 3,7 milljarða í arð
Rekstrarkostnaður félagsins lækkaði einnig á milli ára og fór úr 704,2 milljónum evra í 203,4 milljónir evra. Í uppgjöri félagsins segir að þetta sé einkum vegna lægri kostnaðar við aðkeypta flutningsþjónustu og lægra olíuverðs.
EBITDA rekstrarhagnaður nam 123,4 milljónum í fyrra samanborið við 163,1 milljón árið 2022.
Stjórn félagsins mun leggja til við aðalfund, sem haldinn verður 7. mars 2024, að greiddur verði út arður sem nemur u. þ. b. 25 milljónum evra, eða um 3,7 milljörðum króna á gengi dagsins, fyrir fjárhagsárið 2023, sem er ígildi 46% af hagnaði eftir skatt.
Úflutningsmagn frá Íslandi óbreytt
Að mati félagsins skiluðu gámasiglingar góðri afkomu þrátt fyrir að markaðsaðstæður í Trans-Atlantic hafi breyst verulega og valdið mikilli lækkun flutningsverða frá fyrra ári þegar alþjóðleg verð voru mjög há.
„Magn í gámasiglingum minnkaði lítillega milli ára, einkum vegna minna magns í Trans-Atlantic flutningum á sama tíma og magn á öðrum flutningsleiðum breyttist lítið. Innflutningsmagn til Íslands hélst sterkt út árið þökk sé umsvifum í hagkerfinu og ríkri áherslu á hátt þjónustustig,“ segir í uppgjöri félagsins.
Þá hélst útflutningsmagn frá Íslandi svipað milli ára þrátt fyrir að það hafi verið undir væntingum vegna minni framleiðslu á eldislaxi og iðnaðarvöru en gert hafði verið ráð fyrir.
„Í byrjun árs sáust fyrstu merki um lækkun í Trans-Atlantic flutningsverðum og á öðrum og þriðja ársfjórðungi lækkuðu verðin mjög skarpt áður en þau náðu jafnvægi á síðasta ársfjórðungi 2023. Tekjur í Trans-Atlantic eru stærsta einstaka ástæða lækkunar í EBITDA rekstrarhagnaði á milli ára.“
Frystiflutningskerfið í Noregi skilaði lægri afkomu en árið 2022, einkum vegna minni bolfiskkvóta og lægri meðalflutningsverða, samhliða veikingu norsku krónunnar gagnvart evru frá fyrra ári.
„Það er mikilvægt að rifja upp að á árunum 2021 og 2022 hækkuðu alþjóðleg flutningsverð gríðarlega vegna þeirra truflana sem heimsfaraldurinn olli á aðfangakeðjum heimsins en verð á flestum leiðum hófu að lækka hratt um mitt ár 2022. Í tilfelli Trans-Atlantic byrjuðu verðin hins vegar ekki að lækka fyrr en í byrjun árs 2023 og í lok þriðja ársfjórðungs voru þau komin á svipaðan stað og fyrir heimsfaraldurinn. Óumflýjanlega hafði þetta mikil áhrif á afkomu áætlanasiglinga samanborið við metárið 2022, þar sem stór hluti af rekstrarkostnaði siglingakerfisins fylgir ekki tekjum heldur byggist á þeim eignum og innviðum sem standa undir siglingakerfinu,“ segir Vilhelm.
Nýfjárfesting Eimskips jókst á árinu og fór úr 9,7 milljónum evra árið 2022 í 17,8 milljónir evra.
Stærsta einstaka verkefnið á árinu var bygging á nýju vöruhúsi, frystigeymslu og höfuðstöðvum í Færeyjum. Framkvæmdin verður lokið í ár samkvæmt uppgjöri.
Næststærsta fjárfesting ársins var sjálfvirkt gámahlið í Sundahöfn, en það verkefni hófst árið 2022 og lauk á fjórða ársfjórðungi 2023.
Nýjar umhverfisreglur munu hafa áhrif
Að sögn Vilhelms teiknaði Eimskip upp breytingar á siglingakerfinu um leið og fyrstu merki urðu sýnilega um lækkun flutningsverða í upphafi ársins 2023.
„Markmið breytinganna voru skýr frá byrjun: að lækka kostnað, minnka eldsneytisnotkun og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda ásamt því að tryggja áreiðanlega og góða þjónustu. Að breyta kerfi af þessari stærðargráðu og flækjustigi er ekki einfalt verk en við innleiddum fyrsta fasa breytinganna í maí 2023 og nutum ávinningsins hluta úr árinu. Seinni fasi breytinganna var kynntur í lok nóvember og verður innleiddur í lok febrúar á þessu ári. Það var ekki einungis tekjusamdráttur vegna breyttra markaðsaðstæðna sem hvatti okkur af stað í þetta verkefni, heldur erum við jafnframt að bregðast við nýjum umhverfisreglugerðum svo sem CII reglugerð Alþjóða Siglingamálastofnunarinnar og inngildingu skipaflutninga í ETS kerfi Evrópusambandsins.“
Vilhelm segir jafnframt að um miðjan desember hófst tímabil mikilla verðsveiflna þegar Suez-skurðurinn lokaðist nánast fyrir almennri umferð vegna árása herskárra hópa á flutningaskip.
„Þessi alvarlega staða hefur aukið hringferðartíma flutningaskipa og gáma milli Asíu og Evrópu sem hefur leitt til skarpra hækkana á flutningsleiðum tengdum Asíu. Nýlega hafa áhrif þessara atburða byrjað að koma fram í hækkunum á verðum á ótengdum flutningaleiðum, til dæmis Trans-Atlantic, enda hefur þessi staða raskað jafnvægi í flutningakeðjum og dregið umtalsvert úr afkastagetu í flutningskerfi heimsins. Hvernig þessir alvarlegu atburðir þróast getur haft áhrif á horfur fram undan fyrir alþjóðlega hluta starfsemi okkar en heilt yfir erum við nokkuð bjartsýn,“ segir Vilhelm.