Ársfjórðungstekjur BYD voru nú í fyrsta sinn hærri en tekjur Tesla. Kínverski rafbílaframleiðandinn skilaði meira en 28,2 milljörðum dala í tekjur milli júlí og september á meðan tekjur Tesla voru 25,2 milljarðar dala.

Tesla seldi hins vegar fleiri rafbíla en BYD á þriðja ársfjórðungnum.

Sala rafbíla í Kína hefur verið að aukast en stjórnvöld hafa verið dugleg að veita ríkisstyrki til að hvetja neytendur til að skipta út bensínbílum sínum fyrir rafbíla eða tvinnbíla.

BYD, ásamt öðrum kínverskum rafbílaframleiðendum, hefur þó verið að glíma við ákveðið bakslag erlendis þar sem stjórnvöld hafa verið að hækka tolla á innflutt kínversk ökutæki. Fyrr í vikunni tóku í gildi 45,3% tollar innan ESB á alla innflutta kínverska bíla.

Kínverskir rafbílaframleiðendur stóðu þegar frammi fyrir 100% tollum frá Bandaríkjunum og Kanada en ríkin segjast vera að bregðast við ósanngjörnum ríkisstyrkjum sem kínversk stjórnvöld veita kínverskum bílaframleiðendum.