Huppuís skilaði 37 milljóna króna hagnaði árið 2022, samanborið við tæplega 16 milljóna hagnað árið áður. Tekjur Huppuíss, sem er stærsta ísbúðakeðja landsins, jukust um 24% á milli ára og námu 728 milljónum króna í fyrra.
Ísbúð Huppu var stofnuð á Selfossi árið 2013 af vinkonunum Telmu Finnsdóttur og Eygló Rún Karlsdóttur og mökum þeirra, þeim Gunnari Má Þráinssyni og Sverri Rúnarssyni. Umsvif fyrirtækisins hafa aukist til muna síðan þá en níu ísbúðir eru reknar undir merkjum Huppuíss í dag.
Þau seldu helmingshlut í félaginu til Eignarhaldsfélagsins Kolku, aðaleiganda Emmessís, árið 2021 fyrir 160 milljónir króna en Huppa og Emmessís hafa frá upphafi átt í samstarfi við framleiðslu á ísnum sem Huppa selur.
Eignir Huppuíss voru bókfærðar á 134 milljónir í lok síðasta árs samanborið við 94 milljónir árið áður. Eigið fé jókst úr 47 milljónum í 84 milljónir á milli ára. Félagið hyggst ekki greiða út arð í ár.
