Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og forstjórar systurstofnana Seðlabankans á Norðurlöndunum, sem fara fyrir fjármálaeftirliti og skilavaldi, sendu í maí bréf á Evrópska bankaeftirlitið EBA þar sem varað var við flækjustigi regluverks sem gildir um fjármálastarfsemi á evrópska efnahagssvæðinu. Brýnt væri að leita leiða til að einfalda regluverkið.
Ásgeir ásamt forstjórum fjármálaeftirlita hinna Norðurlandaríkjanna, í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi, sendu áþekkt bréf síðasta sumar til evrópskra fjármálaeftirlitsstofnana þar sem listaðar voru áhyggjur af íþyngjandi flækjustigi regluverks um fjármálamarkaði og hvatt til einföldunar á því við upphaf nýs kjörtímabils á Evrópuþinginu.
Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, segist heilshugar taka undir áhyggjur sem viðraðar eru í bréfum seðlabankastjóra og norrænna kollega hans.
„Mikilvægt starf hefur verið unnið á fjölmörgum sviðum á síðustu árum í að treysta umgjörð og stöðugleika um fjármálastarfsemi. Öll viljum við góðar og skýrar reglur sem og virkt og áhættumiðað eftirlit. Engu að síður er umfang og flækjustig regluverksins bæði kostnaðarsamt og orðið sérstakur áhættuþáttur eins og umræðan í Evrópu ber með sér. Þetta á sér í lagi við um fámenn ríki á borð við Ísland, og á það við um fyrirtækin sem starfa samkvæmt löggjöfinni en einnig stjórnvöld og eftirlitsaðila. Því er full ástæða til að taka undir ákall um að einfalda regluverkið. Á það bæði við á vettvangi Evrópusambandsins og hér á landi. Þar væri til bóta að vinda ofan af íþyngjandi séríslenskum lagaákvæðum sem felast í svokallaðri gullhúðun eða blýhúðun og draga úr kostnaði af skýrsluskilum, til að mynda með því að fella niður kröfu um ýmis séríslensk gagnaskil sem ekki þjóna lengur tilgangi sínum. Þá er mikilvægt að Ísland sé með svipaðar eiginfjárkröfur og bindiskyldu og nágrannaríki okkar, til að skekkja ekki samkeppnishæfnina enn frekar.“
Heiðrún bendir á að EBF, Evrópsku bankasamtökin, leggi áherslu á að auka samkeppnishæfni Evrópu með því að einfalda regluverk og eftirlit með fjármálakerfinu. Mikilvægt sé að reglur styðji og treysti fjármálastöðugleika og verndun neytenda en stuðli jafnframt að vexti og samkeppnishæfni.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.