Sjú Enlæ, fyrsti for­sætis­ráð­herra Al­þýðu­lýð­veldisins Kína, sagði stoltur árið 1975 að kín­verska ríkið væri alveg skuld­laust „í saman­burði við efna­hags­legu ringul­reiðina og verð­bólguna sem finnst í hinum kapítalíska heimi.“

Enlæ lét orðin falla í ræðu fyrir kín­verska þinginu en hann fagnaði því þar að ríkinu hefði tekist að halda jafn­vægi milli tekna og út­gjalda án skulda­söfnunar.

Robin Harding, rit­stjóri Asíu­markaða fyrir Financial Times, rifjar upp um­mæli Enlæ í skoðana­pistli í morgun sam­hliða for­síðu­frétt FT um mögulega bólu á skulda­bréfa­markaði í Kína sem gæti sprungið fyrir árs­lok.

Út­gáfu­á­ætlun kín­verska ríkisins gerir ráð fyrir á þriðja hundrað milljarða dala skulda­bréfa­út­gáfu fyrir árs­lok sem gæti „sprengt bóluna“ á skulda­bréfa­markaði.

Sam­kvæmt FT eru aðilar ná­tengdir kín­verska seðla­bankanum að reyna vara við því að ríkið fylgi á­ætluninni en á síðustu dögum hefur gríðar­leg sókn í kín­versk skulda­bréf ýtt verðinu upp og þrýst á­vöxtunar­kröfunni á tíu ára bréfunum niður í 2,2%.

Sam­kvæmt opin­berum gögnum frá kín­verska ríkinu á ríkið enn eftir að gefa út um helming af lang­tíma­bréfunum sem eru á út­gáfu­á­ætlun fyrir árið 2024.

Um er að ræða lang­tíma­bréf sem er ætlað að fjár­magna sveitar­fé­lög og ríkis­valdið en sam­kvæmt á­ætluninni þarf ríkið að gefa út skulda­bréf fyrir 2,68 billjón (e.trillion) ren­minbi eða sem nemur 51,6 þúsund milljörðum ís­lenskra króna.

„Þegar þessi skulda­bréf ríkis og sveitar­fé­laga, sem eru gefin út vegna fjár­laga­halla, springa í lok árs eru gríðar­lega miklar líkur á kú­vendingu á á­vöxtunar­kröfunni,“ segir heimildar­maður FT sem er sagður ná­tengdur kín­verska seðla­bankanum.

Að mati Harding er þetta til­efni til að rifja upp um­mæli Enlæ því þau endur­spegla enn við­horfið hjá fjár­mála­ráðu­neyti Kína.

Skuldir kín­verska ríkisins eru 24% af vergri lands­fram­leiðslu sem telst ekki hátt hlut­fall í al­þjóð­legum saman­burði en kín­verska ríkið er afar tregt að leyfa hlut­fallinu að hækka.

Á hinn bóginn liggur skulda­hlut­fall sveitar­fé­laga í kringum 93% af VLF sam­kvæmt Al­þjóða­gjald­eyris­sjóðnum sem er van­mat að mati Harding.

Kín­versk sveitar­fé­lög og héruð sjá um nær öll út­gjöld í Kína hvort sem um er að ræða út­gjöld til mennta­mála, hús­næðis- eða heil­brigðis­mála. Um 55% af skatt­tekjum renna beint til þeirra en þau eyða um 85% af öllum tekjum ríkisins.

Hæg efna­hags­um­svif síðast­liðið ár hafa leitt til þess að Kín­verjar hafa þurft að gefa út gríðar­lega mikið af skulda­bréfum til að mæta skuld­bindingum sínum. Fjöl­mörg löng ríkis­bréf til að fjár­magna sveitar­fé­lögin hafa farið á markað síðast­liðið ár sem og löng ríkis­bréf með það í huga að reyna örva efna­haginn.

Aukin út­gáfa ríkis­bréfa, sam­hliða minni efna­hags­um­svifum og veikum hluta­bréfa­markaði í Kína, hefur leitt til þess að kín­verskir bankar hafa keypt gríðar­lega mikið af ríkis­skulda­bréfum.

Á­hyggjur eru því að aukast að bóla sé á skulda­bréfa­markaði sem gæti sprungið. Á­vöxtunar­krafa ríkis­skulda­bréfa til tíu ára í Kína fór niður í 2,12% í mánuðinum sem er það lægsta í sögunni.

Kín­verski Seðla­bankinn er byrjaður að hafa á­hyggjur af því að fjár­festinga­sjóðir og bankar séu að halda á of mikið af lang­tíma­bréfum sem gæti komið þeim í tölu­verð vand­ræði þegar vöxtum verður breytt.

Samkvæmt FT er um svipaða stöðu að ræða og felldi Silicon Valley Bank.

„Á­vöxtunar­krafa ríkis­skulda­bréfa til lengri tíma hefur vikið frá sínu eðli­lega horfi og sýnir öll merki um að það sé bóla,“ sagði Sjú Dsjong, að­stoðar­for­stjóri sam­taka um fjár­mála­markaði sem er undir­stofnun kín­verska Seðla­bankans, fyrr í mánuðinum.

Að mati Harding er ljóst að breytinga er þörf þar sem kín­verska ríkið neyðir sveitar­fé­lögin til að sjá um alla þjónustu en neitar að skuld­setja sig til að fjár­magna hana.

Hann bendir jafn­framt á að af­leiðingar þessa megi sjá í bólunni sem myndaðist á kín­verskum fast­eigna­markaði er fjár­þurfa sveitar­fé­lög seldu lóðir í stórum stíl í leit að tekjum.

Sam­hliða því að hús­næðis­markaðurinn í Kína er í tölu­verðum vand­ræðum hefur ríkið einnig meinað sveitar­fé­lögunum að gefa út skulda­bréf sjálf heldur fer öll fjár­mögnun í gegnum ríkið.