Í kjölfar þess að ríkið losaði endanlega um allt eignarhald í Íslandsbanka í útboði sem lauk í gær, telja viðmælendur Viðskiptablaðsins að í uppsiglingu séu sameiningar á bankamarkaði.

Kemur annað bréf frá Arion?

Í febrúar 2025 sendi Arion banki bréf til stjórnar Íslandsbanka þar sem lýst var yfir áhuga á að hefja viðræður um mögulegan samruna bankanna. Í bréfinu lagði Arion banki áherslu á að samruni gæti leitt til verulegs hagræðis, aukinnar skilvirkni og sparnaðar fyrir viðskiptavini og hluthafa.

Stjórn Íslandsbanka svaraði 27. febrúar sl. og afþakkaði boð Arion banka um samrunaviðræður. Í svari stjórnarinnar kom fram að hún teldi ólíklegt að samruni við Arion banka fengi samþykki Samkeppniseftirlitsins við núverandi aðstæður nema gegn ströngum og íþyngjandi skilyrðum.

Þrátt fyrir afdráttarlaust svar stjórnar Íslandsbanka þá eru Arionbankamenn enn áhugasamir um þessa leið.

Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, sagði í viðtali í Viðskiptablaði vikunnar að Íslandsbanki hafi talið óskynsamlegt að fara af stað í verkefni af þessari stærðargráðu án þess að hafa hæfilegar væntingar um að samruninn gæti gengið eftir. Hann neitaði því þó ekki að samruni bankanna myndi hafa ýmsa kosti í för með sér.

„Það segir sig sjálft að með því að sameina tvo stóra banka í eina stærri einingu er hægt að ná fram stærðarhagkvæmni og auknum slagkrafti. Aftur á móti eru samkeppnissjónarmiðin hin hliðin á peningnum. Í sjálfu sér er hægt að heimfæra þetta yfir á hvaða geira sem er, þessa jafnvægislist á milli stærðarhagkvæmni og samkeppnissjónarmiða. Það er bara spurning hvort vegur þyngra í hverju tilfelli fyrir sig.“

Kvika og Arion banki

Þeir sem telja leið Arion banka um yfirtöku á Íslandsbanka ófæra segja vænlegt fyrir Arion banka að sameinast Kviku banka. Því hefur verið haldið fram að hluthafar bankanna hafi rætt málin á síðasta ári en það hefur ekki fengist staðfest. Slíkt tal væri ekki tilkynningarskylt ólíkt samtölum stjórnar eða starfsmanna bankanna sín í milli.

Hagræðingin við þessa sameiningu væri veruleg en þó mun minni en ef Arion banki og Íslandsbanki myndu sameinast.

Viðskiptablaðið fjallaði síðasta haust um orðróma um mögulegar samrunaviðræður Arion og Kviku.

Fleiri möguleikar

Í ársbyrjun hófu Íslandsbanki og Vís formleg samstarf. Í tilkynningu kom fram að þeir sem eru í viðskiptum við bæði félög njóti sérstaks ávinnings í vildarkerfum félaganna.

Ræddur hefur verið sá möguleiki að Íslandsbanki sameinist Skaga, móðurfélagi VÍS, Fossa fjárfestingarbanka og Íslenskum verðbréfum, eða taki yfir VÍS. Íslandsbanki væri með því að fara sömu leið og helstu samkeppnisaðilar sínir, Arion bank og Landsbanka.‏ Arion keypti Vörð árið 2016 og Landsbankinn TM í fyrra.

Þá gæti samruni Íslandsbanka og Kviku einnig komið til álita en bankarnir tveir hófu formlegar samrunaviðræður fyrir rúmum tveimur árur. Þær viðræður runnu þó út í sandinn.