Stjórn Regins telur sér ekki fært að verða við bón stjórnar Eikar um viðræður um yfirtökutilboð fyrrnefnds fasteignafélags á því síðara þar sem lagalegur rammi bindi hendur stjórnar Regins. Þetta kemur fram í bréfi stjórnar Regins til stjórnar Eikar.
Stjórn Eikar fasteignafélags óskaði í síðustu viku eftir viðræðum við stjórn Regins um yfirtökutilboð síðarnefnda félagsins og hverjar áherslur sameinaðs félags yrðu „til að kanna hvort stjórn Regins sé reiðubúin til að breyta áherslum sínum og veita stefnu Eikar meira vægi í framtíðaráformum sínum“.
„Það er von stjórnar Eikar að með slíku samtali fáist hagfelld niðurstaða fyrir hluthafa sem og aðra haghafa félaganna áður en stjórn Eikar hyggst birta uppfærða afstöðu til hins breytta tilboðs,“ sagði stjórn Eikar í bréfi til stjórnar Regins.
Í svarbréfi stjórnar Regins segir að stjórnin hafi farið yfir erindi stjórnar Eikar varðandi valfrjálst tilboð Regins til hluthafa Eikar. Tilboðinu sé markaður skýr rammi samkvæmt lögum um yfirtökur, samkeppnislögum og stöðu félaganna sem skráðra félaga á markaði. „Á meðan tilboðið er í sínum lögbundna farvegi bindur sá lagalegi rammi hendur stjórnar Regins og takmarkar möguleika hennar til þess að eiga viðræður við stjórn Eikar um mögulegar breytingar á tilboðinu, hvort sem er á skilmálum þess eða þeim áherslum sem liggja tilboðinu til grundvallar,“ segir í bréfinu.
Þær áherslur sem liggi til grundvallar valfrjálsu tilboði Regins hafi verið kynntar hluthöfum Eikar með ítarlegum hætti – fyrst í markaðsþreifingum í aðdraganda þess að stjórn Regins ákvað að leggja tilboðið fram og í kjölfarið í opinberu tilboðsyfirliti vegna tilboðsins og uppgjöri Regins fyrir fyrstu sex mánuði ársins.
Umræddar áherslur Regins komi einnig fram í samrunatilkynningu sem sé til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu og hafi verið birt opinberlega. Fyrir hluthöfum Eikar liggi að meta fyrirliggjandi skilmála og áherslur valfrjálsa tilboðsins og taka afstöðu til tilboðsins eigi síðar en 13. nóvember næstkomandi, að því gefnu að gildistími þess verði ekki framlengdur.
„Í ljósi þeirra skorða sem stjórn Regins eru settar og með hliðsjón af því að málið er til lögbundinnar meðferðar hjá eftirlitsstofnunum og niðurstöðu er beðið telur stjórnin sér ekki fært að verða við beiðni stjórnar Eikar um viðræður á þeim grundvelli sem lagður er til í bréfinu,“ segir í niðurlagi bréfs stjórnar Regins til stjórnar Eikar, sem undirritað er af Tómasi Kristjánssyni, stjórnarfomanni Regins.