Bílaframleiðandinn Tesla hefur lækkað verð á vinsælustu týpunni sinni, Model Y, í Evrópu. Verð á bílnum sem stendur íslenskum neytendum til boða hefur lækkað um meira en 10% frá 1. janúar síðastliðnum.
„Í vegferð okkar í átt að því markmiði að flýta fyrir umskiptum heimsins yfir í sjálfbæra orku, er lykiláhersla okkar árið 2024 að tryggja að Tesla verði aðgengilegri fyrir fleiri,“ segir í tilkynningu frá Tesla. „Við stefnum að því markmiði með því að endurhugsa hönnunar- og framleiðsluferla, sem gerir okkar starfsemi skilvirknari og hagkvæmari.“
Verðlækkanir í Evrópu fylgja töluverðum lækkunum á verðlagi rafbílaframleiðandans í Kína á síðustu misserum, að því er segir í umfjöllun CNBC.
Model Y á Íslandi lækkar um allt að 12%
Á heimasíðu Tesla er ódýrasta týpan af Model Y nú fáanlega 6.838 þúsund krónur með virðisaukaskatti, sem samsvarar 12% verðlækkun en í upphafi árs var hún fáanleg á 7.780 þúsund krónur.
Long range-útgáfa Model Y hefur einnig lækkað um 10% og fæst nú á 8.088 þúsund krónur samanborið við 9.020 þúsund krónur í upphafi árs.
Þess má geta að nýtt stuðningskerfi var tekið í gildi hjá Orkustofnun um áramótin sem hefur í för með sér að frá bílakaupendur geta sótt um styrk til rafbílakaupa. Ný ökutæki í flokki fólksbifreiða að kaupverðmæti undir 10 milljónir króna eru styrkhæf að upphæð 900 þúsund krónum.
Að frádregnum rafbílastyrknum kostar staðlaða útgáfan af Model Y íslenska neytendur nú rétt undir 6 milljónum króna.
Það er sambærilegt verði Model Y bílana fyrir áramót en frá og með 1. janúar fá kaupendur rafbíla ekki lengur endurgreiðslu á virðisaukaskatti upp á allt að 1.320 þúsund krónur. Fréttamiðilinn FF7 tók saman verðbreytingar vegna þessarar breytingar í byrjun árs.
Vinsælasti bíllinn í fyrra
Tesla vakti einnig mikla athygli í upphafi síðasta árs með umtalsverðum verðlækkunum. Hér á landi lækkuðu Teslurnar um allt að 20%.
Tesla Model Y bílarnir voru langvinsælustu nýju bílarnir á Íslandi í fyrra samkvæmt tölfræði Samgöngustofu. Alls voru 3.261 Model Y bíll nýskráður á síðasta ári. Næsti bíll sem fylgdi þar á eftir var Duster en 1.024 slíkir bílar voru nýskráðir á árinu 2023.
Sé flokkað eftir bílaframleiðendum var Tesla í efsta sætinu yfir nýskráningar fólksbifreiða eða alls 3.575 bíla. Toyota fylgdi þar á eftir með 3.255 nýskráða fólksbifreiðar.
„Model Y sló met frá 1986 yfir mest selda bílinn á einu ári í Danmörku og á Íslandi endaði Tesla 33 ára sigurgöngu og varð mest selda bílamerkið á Íslandi árið 2023,“ segir í tilkynningu sem Tesla sendi frá sér í dag.
Tesla telur einnig að Model Y hafi verið mest seldi bíllinn í Evrópu árið 2023 en bíður þó staðfestingar þess efnis frá þriðja aðila.
Fréttin var uppfærð eftir að tilkynning barst frá Tesla.