Donald Trump, forsetaframbjóðandi bandaríska repúblikanaflokksins, sagði stýrivaxtalækkanir á heimsvísu hafa slæleg áhrif á bandarískan efnahag, og að efnahagsstefnurnar kosti Bandaríkjamenn störf. Fréttaveita CNBC segir frá þessu.

Ummæli Trump voru látin falla í kjölfar þess að Mario Draghi og föruneyti tilkynnti um stýrivaxtalækkanir evrópska seðlabankans - en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í dag voru stýrivextir lækkaðir úr 0,05% niður í núll prósent.

Innlánsvextir bankans voru neikvæðir um 0,3% en eftir ákvörðun seðlabankans verða þeir neikvæðir um 0,4%. Bankinn ákvað einnig að auka við skuldabréfakaup bankans, en hann mun nú kaupa skuldabréf fyrir 80 milljarða evra í mánuði, í stað 60 milljarða evra.

Aðspurður sagði Trump að þróun peningamála seðlabanka víðsvegar um heim væri farin að verða hættuleg:

„Það eru allir að þessu [að lækka stýrivexti] nema við. Framleiðsla er að fara í öndverða átt og við sitjum bara og gerum nákvæmlega ekki neitt. Þetta er mjög hættulegt, eins best ég veit."