Tengiltvinnbílar bera núna fullan virðisaukaskatt. Frá árinu 2012 og fram til síðustu áramóta nam skattívilnun vegna tengiltvinnbíla 980 þúsund krónum, og því voru fyrstu fjórar milljónir kaupverðsins undanþegnar virðisaukaskatti. Um síðustu áramót minnkaði ívilnunin um helming og féll loks endanlega niður nú í byrjun maí.

Samkvæmt tekjuskattslögum náði heimildin til niðurfellingar virðisaukaskattsins út árið 2022, eða þegar að 15 þúsund bíla skráningar hámarki yrði náð. Þann 26. apríl varð loks ljóst að markinu hafði verið náð heimildin myndi því renna út þann sjötta maí, og skattbyrði bílanna þá aukast um tæpa hálfa milljón. Bílaumboðin þurftu að bregðast hratt við til að selja bíla áður en hækkunin tók gildi þann 7. maí.

„Þegar það var ljóst að hækkunin yrði þá þurfti að bregðast ansi hratt við, lagerinn af þessum bílum þurrkaðist að miklu leiti upp á þessum stutta tíma.“, sagði Brynjar Elefsen Óskarsson, framkvæmdastjóri sölusviðs hjá BL.

„Alveg eins tel ég að þessar breytingar verði til þess að fólk kaupi sér bara dísilbíl, þetta snýst enn þá um að bíllinn þarf að leysa ákveðnar þarfir.“, segir Brynjar aðspurður hvort eftirspurnin muni frekar aukast í átt að hreinum rafbílum.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið birti þann 3. júní tilkynningu þess efnis að skattaívilnanir vegna vistvænna bíla frá árunum 2012 hafi numið um 28 milljörðum króna.

Unnið er að heildarendurskoðun á kerfinu en ljóst er að vistvænir bílar skila afar takmörkuðum tekjum til ríkissjóðs samanborið við jarðefnaeldsneytisbíla.