Tesla hefur tilkynnt að nýjasta framtíðarökutæki í framleiðslulínu sinni, Cybercab, sé á leið til Evrópu. Tesla Cybercab verður til sýnis í völdum verslunum Tesla í Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi, Hollandi, Svíþjóð og Noregi.
Rafbíllinn var fyrst kynntur þann 10. október sl. á We, Robot-viðburðinum í Los Angeles en þar voru meðal annars Cybercab, Robovan og Optimus til sýnis.
Cybercab er tveggja sæta bíll án stýris eða fótstiga sem allir hafa aðgang að í gegnum Tesla-smáforritið. Hægt verður að panta bílinn og nota hann eins lengi og viðskiptavinur þarf á honum að halda, hvort sem um er að ræða stuttar ferðir eða nýtingu yfir allan daginn.
Elon Musk sagði í síðasta mánuði að Cybercab myndi kosta undir 30 þúsund dali, eða rúmlega fjórar milljónir króna. Hann býst við að bíllinn fari í framleiðslu fyrir árið 2026 en sérfræðingar hafa dregið í efa hversu raunhæf sú tímatafla er.