Tesla hefur ákveðið að fresta kynningu á sjálfkeyrandi leigubíl sem rafbílaframleiðandinn er að þróa um tvo mánuði eða fram í október. Erlendir viðskiptamiðlar rekja 8% lækkun á hlutabréfaverði Tesla og hækkun á gengi hlutabréfa Uber og Lyft í gær til fregnanna.

Elon Musk, forstjóri og stofnandi Tesla, hafði stefnt að því að kynna sjálfkeyrandi leigubílinn (e. Robotaxi) þann 8. ágúst.

Fyrirtækið ákvað hins vegar að fresta viðburðinum um tvo mánuði til að gefa hönnunarteymum svigrúm til að endurhanna tiltekin atriði á bílnum og búa til auka frumgerðir, samkvæmt heimildarmönnum Bloomberg.

Tesla hefur unnið að sjálfkeyrandi leigubíl í nokkur ár. Í umfjöllun Bloomberg segir að verkefnið hefur verið í pípunum a.m.k. í átta ár. Musk hefur gefið verkefninu forgang fram yfir ódýrari útgáfu af Model 3 rafbílnum á undanförnum mánuðum.

Þrátt fyrir lækkunina í gær hefur gengi hlutabréfa Tesla hækkað um þriðjung síðastliðinn mánuð sem rekja má m.a. til þess að sölutölur í síðasta árshlutauppgjöri voru umfram spár greiningaraðila.