Tansaníska námufélagið Baridi Group, sem Kristinn Már Gunnarsson stofnaði árið 2022, á 47 rannsóknarleyfi víðs vegar um Tansaníu, þar af 12 liþíum, 7 kopar, 9 grafít, 11 nikkel, og 8 gull.
Kristinn segir í viðtali í Viðskiptablaði vikunnar mikinn áhuga vera á málmum félagsins.
Meðal félaga sem eru í beinu sambandi sé Tesla og Mercedes-Benz. Elon Musk, í gegnum annað félag, sé meira að segja búinn að kaupa sig inn í grafítleyfi við hliðina á Baridi.
Evrópa sofandi á verðinum
Að mati Kristins er Evrópa ekki nógu meðvituð um mikilvægi þess að tryggja öruggt aðgengi að krítískum málmum. Mörg Evrópulönd standi enn í þeirri trú að það verði bara hægt að kaupa öll þessi efni annars staðar frá. Þá sjáist til að mynda á samskiptunum við Tesla annars vegar og Mercedes hins vegar.
Hjá Tesla séu innkaupastjórar fyrir hvern málm fyrir sig, sem margir hafi haft beint samband við Baridi. Í tilviki Mercedes hringdi sjálfur forstöðumaður innkaupadeildarinnar en þýski bílaframleiðandinn er ekki með sérstaka innkaupadeild fyrir batterímálma.
Í gegnum hundrað ára sögu félagsins hafi Mercedes aldrei þurft að huga að eldsneytinu, aðeins að framleiða bíla og vélar. Félagið sé 10 árum á eftir Asíu í þróun battería sem séu orðinn mikilvægur hluti af eldsneyti.
„Ef Kínverjar eru með batterí sem dugir fyrir 4.000 kílómetra drægni og getur hlaðið sig á 10 mínútum fer að skipta mun minna máli hvað Bensinn er góður. Þetta er í fyrsta skiptið sem eldsneytið er það sem selur bílinn en ekki eitthvað annað.“
Af Evrópuþjóðum eru það helst Frakkar og Ítalir sem hafa sett sig í samband við Baridi. Kristinn segir að þrátt fyrir sterk tengsl við Þjóðverja sé enginn iðnaður í kringum koparvinnslu í Þýskalandi. Þeir flytji koparinn því helst fullunninn inn.
Áhugi Kína leynir sér ekki
Áherslur stjórnvalda í Kína um að vera leiðandi í að tryggja sér framboð af fágætismálmum leyna sér ekki Tansaníu að sögn Kristins. „Þeir voru ekki hérna þegar ég kom fyrst en í dag getur maður ekki þverfótað fyrir þeim,“ segir hann kíminn.
„Þegar við finnum góðan gljástein (e. mica) í dag standa þeir í röðum til að kaupa þetta, bara Kínverjar. Það hefur enginn annar áhuga á þessu. Það virðist sem enginn annar sé búinn að fatta hvað á að gera við þetta.“
Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali við Kristin um námuverkefnið í Tansaníu í Viðskiptablaði vikunnar. Þar fer hann yfir aðdraganda þess að hann flutti til Tansaníu og stofnaði Baridi.