Hagnaður útgerðarfélagsins Brims á þriðja ársfjórðungi dróst saman um 22% frá sama tímabili í fyrra og nam 26 milljónum evra, eða um 3,9 milljörðum króna. Sölutekjur félagsins drógust saman um 2,9% og námu um 16,6 milljörðum króna.

„Þessi niðurstaða er ekki viðunandi en við sem höfum reynslu af útgerð og glímunni við náttúruöflin vitum að það gengur á ýmsu og sveiflur eru bæði upp og niður,“ segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, í uppgjörstilkynningu um verri afkomu.

„Það harðnar á dalnum þessi misserin í sjávarútvegi. Niðurskurður á verðmætum tegundum í bolfiski og bann við loðnuveiðum eru farnar að bíta, við veiðum minna af bolfisktegundum og tekjur dragast saman. Þá var makrílveiðin lakari en vonir stóðu til,“ segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, í uppgjörstilkynningu.

Hann segir að Brim hafi einungis veitt 65% af aflaheimildum sínum á vertíðinni þetta árið en félagið vonist til að geta nýtt eftirstöðvar heimildanna á næsta ári.

„Þá fór Brim ekki frekar en aðrir varhluta af kostnaðarhækkunum sem þýðir að kostnaður við rekstur félagsins jókst. Hagnaður minnkaði og afkoman af rekstri félagsins var verri á þriðja ársfjórðungnum en í fyrra.“

Mynd tekin úr fjárfestakynningu Brims.

Vonast eftir samtali við stjórnvöld að loknum kosningum

Guðmundur segir að nú þegar vænta megi veðrabrigða í stjórnmálum hér á landi í kjölfar kosninga sé það von hans að ný stjórnvöld taki upp „öflugt og gott samtal við okkur sem vinnum í íslenskum sjávarútvegi“.

Hann vonist þannig eftir að samstaða verði um að viðhalda stöðugleika og skapa aukinn fyrirsjáanleika í nýtingu auðlinda í sjávarútvegi „en þannig munu skapast meiri verðmæti fyrir samfélagið í heild sinni“.