Götubitahátíðin, stærsti matarviðburður á Íslandi, fer fram núna um helgina 18. - 20. júlí í Hljómskálagarðinum í Reykjavík í samstarfi við European Street Food Awards. Þetta verður í sjöunda sinn sem hátíðin er haldin en sú fyrsta fór fram árið 2019.
Á hátíðinni í ár verða hátt í 40 söluaðilar í matarvögnum og sölubásum ásamt miklu úrvali drykkjarbása. Hoppukastalar og leiktæki verða einnig í boði fyrir yngri kynslóðina.
Róbert Aron Magnússon (e. Robbi Chronic), framkvæmdastjóri Götubitahátíðarinnar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að hátíðin í ár sé sú fyrsta þar sem ekki hafi verið hægt að taka á móti öllum umsóknum sem bárust.
„Það hefur bæst rosalega í þessa hátíð en í ár erum við með 40 þátttakendur miðað við 26 í fyrra. Við vorum bara komin í hámarksgetu með rafmagn og útfærslu en aðsóknin er bara gríðarlega jákvæð.“
Hann segir að hátíðin sé nú líka farin að bjóða upp á meira samræmi en Robert telur að það hafi oft vantað í nýjungar hér á landi.
„Á Íslandi erum við náttúrulega alltaf 15 árum eftir á og svo kemur loksins einhver uppbygging en svo fjarar hún bara út. Núna erum við hins vegar komin með meira samræmi en áður til að hjálpa þessu að viðhaldast lengur og verða bara hluti af eðlilegu lífi.“
Áfram bætist í flóru veitinga
Róbert segir að margir matvagnar munu snúa aftur með nýjar veitingar en kunnugleg nöfn á borð við Mijita, Little Italy, La Buena Vida, Komo og Plan B verða á sínum stað líkt og undanfarin ár.
„Það er hins vegar kominn það mikill metnaður í marga að sumir eru jafnvel komnir með annan vagn og vilja prufa sig enn lengra áfram. Ég held að flestir, ef ekki allir, séu að útbúa einhvern sérrétt fyrir hátíðina og munu margir frumsýna þá núna um helgina.“
Nokkrir nýir þátttakendur verða einnig viðstaddir og má þar nefna indverska veitingastaðinn Funky Bhangra, Brixton og Berjamó og Allsber sem munu bjóða upp á náttúruvín.
„Það verður svo nýr Fish and Chips-staður frá Selfossi sem heitir Codfather, Víkingapylsur eru líka að koma aftur og svo er nýr ungverskur matarvagn sem heitir Langós en hann verður með djúpsteikt sætabrauð með áleggi.“
Götubitahátíðin er nú orðin þriðja stærsta hátíð landsins en hátt í 50 þúsund gestir sóttu hátíðina í fyrra. Róbert segist jafnframt búast við góðri veðurspá um helgina og að veðrið verði í takti við þá sól og blíðu sem sést hefur á hátíðinni undanfarin ár.
„Við erum gríðarlega spennt fyrir þessari hátíð. Hún gerir svo mikið, bæði fyrir borgarbúa og þá sem koma og upplifa stemninguna, og líka fyrir alla þessa fjölbreytni og þá sem koma og fá tækifæri til að kynna sinn mat frá sínu landi.“