Flugþjónustufyrirtækið Challenge Technic, sem áður hét JetMX, hefur vaxið hratt frá stofnun og hyggur ekki á breytingu þar á þrátt fyrir að hafa verið keypt af tilvonandi viðskiptavini á síðasta ári.

„Loks sneru þeir sér bara við í miðjum viðræðum og spurðu hvað við við vildum fá fyrir fyrirtækið. Við hentum út tölu út í bláinn sem okkur fannst algerlega óraunhæf og þeir sögðu bara „ok“,“ segir Erlingur Pétur Úlfarsson framkvæmdastjóri um fundinn örlagaríka.

Félagið var stofnað árið 2019 af fjórmenningunum Erlingi, Magnúsi Þór Jóhannssyni, Sigurði Steinþórssyni og Þóri Alberti Kristinssyni. Strax á fyrsta starfsárinu nam veltan 250 milljónum króna og í fyrra velti fyrirtækið tæpum milljarði. Reksturinn skilaði 85 milljóna króna hagnaði í fyrra en hafði náð enn betri niðurstöðu, 107 milljónum, árið áður.

Erlingur vill ekki gefa upp kaupverðið, en í ársreikningum tveggja félaga sem hvort um sig átti fjórðungshlutdeild í félaginu má finna færslu undir „aðrir fjármagnsliðir“ upp á nákvæmlega sömu krónutölu, rétt yfir 129 milljónum hvor. Leiða má að því líkur að um greiðslu vegna kaupanna sé að ræða, sem myndi gera ríflega 516 milljónir í beinhörðum peningum fyrir félagið allt, en kaupverðið kann svo vel að hafa falið í sér annars konar greiðslu eða greiðslur á borð við hlut í móðurfélaginu.

Vildu stofna eigin deild

Forsvarsmenn félagsins hafa verið óhræddir við að nálgast tilvonandi viðskiptavini beint og sannfæra þá um að koma í viðskipti til sín, en sem fyrr segir tók einn þeirra þessa óvæntu stefnu í fyrra. Um var að ræða flugfélag sem er hluti af stærri samstæðu, Challenge Group, sem þeir höfðu freistað þess að fá til sín í viðskipti.

„Við vorum búnir að vera að reyna það en þeir vildu helst stofna sína eigin deild innan fyrirtækisins. Þegar þeir sáu hvernig við gerðum hlutina áttuðu þeir sig hins vegar á að þeir vildu bara hafa þetta nákvæmlega þannig.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.