Davíð Harðarson, stjórnarformaður Haga og hluthafi í Play, spurði stjórnendur flugfélagsins á upplýsingafundi í gær af hverju flugfélagið væri ekki með meiri eldsneytisvarnir til að verja rekstrarafkomuna fyrir hærra eldsneytisverði.
Flugfélagið sér fram á að skila 550 milljóna króna hagnaði á þriðja ársfjórðungi en um tíu milljóna dala rekstrartap á árinu í heild sinni, eða sem nemur um tæplega 1,4 milljörðum króna.
Vonir voru um að félagið myndi skila rekstrarhagnaði í ár í fyrsta sinn í sögu félagsins en afkomuspáin var færð niður í byrjun september, einkum vegna hærri eldsneytisverðs.
„Það væri áhugavert að heyra, og ég geri mér grein fyrir því að það er auðvelt að vera vitur eftir á, en hvernig er það ef við förum sex mánuði aftur í tímann? Hvernig kom það ekki til álita, þegar félagið stefndi í hagnað, að verja þá stöðu í ríkari mæli með áhættuvörnum í eldsneyti,“ spurði Davíð á fundinum.

Birgir Jónsson forstjóri Play sagði félagið með mjög „hraustlegar eldsneytisvarnir“ sem væru líklegast ástæðan fyrir því að rekstarniðurstaðan væri ekki verri áður en Einar Örn Ólafsson stjórnarformaður Play greip orðið og sagði flugfélagið vera búið verja duglega í eldsneytisvarnir.
Staðan væri þannig að um 50% af eldsneytisnotkun á þriðja ársfjórðungi hafi verið varin og rúmlega 40% af fjórða ársfjórðungi er varin.
„Við erum með stefnu sem segir allt að 60% næstu þrjú og svo 40% og 30%,“ sagði Einar og bætti við að bandarísku flugfélögin verji sig ekki neitt heldur velti kostnaðinum bara út í verðlagið á meðan evrópsku flugfélögin eru almennt að verja sig talsvert mikið.
„Okkar afstaða undanfarið hefur verið að við ætlum að verja okkur á sambærilegan hátt og okkar helstu samkeppnisaðilar. Við viljum ekki vera í einni stöðu og síðan eru allir okkar helstu samkeppnisaðilar í einhverri allt annarri stöðu og svo fer verðið þeim í hag en ekki okkur,“ sagði Einar.
Einar tók eftir því að Davíð var ekki sáttur með svörin og spurði því hvort hann væri með „Follow up“ spurningu?
„Ég meina þetta er náttúrulega bara stefnan ykkar og við hluthafar hljótum bara að hugsa það,“ sagði Davíð.
„Mér finnst áhugavert í rauninni þegar það nánast liggur fyrir, og það nokkurn veginn lá fyrir, að hefðu áætlanir gengið eftir á miðjum hluta ársins þá hefðuð þið getað læst inni hagnað á fyrirtækið sem hefði verið frábært á þriðja ári. En þið ákveðið að fylgja markaðnum, fylgja því sem einhverjir aðrir eru að gera, leyfið þeim að taka þannig ákvarðanir fyrir ykkur og þið lendið þá í því að vera ekki með hagnað á tímabilinu,“ sagði Davíð sem ítrekaði þó að hann væri að vera vitur eftir á.
Einar Örn benti Davíð á að staðan og rekstrarafkoman hefði ekki breyst mikið ef öll eldsneytisnotkun hefði verið varin og að það hefði boðið upp á fleiri hættur.
„Það er aðeins erfitt að segja hvað gerist. Hefðum við sagt í vor að við ætlum að verja alla áætlaða eldsneytisnotkun okkar út árið og svo hefði bara allt annað gerst eins og það gerðist þá hefði afkoman okkar verið nálægt núlli,“ sagði Einar.
„Teneferðir um jólin væru bara á nítján og níu“
Einar teiknaði síðan upp aðra sviðsmynd þar sem félagið hefði varið alla eldsneytisnotkun og síðan hefði olíuverð lækkað til muna.
„Það myndu allir samkeppnisaðilar okkar lækka verðið sitt um 30% og bjóða upp á Teneferðir um jólin á nítján og níu. Hvar erum við þá?
Þá töpum við hverju einasta flugi því við erum að borga 800 dollara fyrir lítrann og þeir 200. Þannig þetta er svolítið þar. Við erum að reyna fara á bil beggja.“