Jón Sigurðs­son, for­stjóri Stoða hf., segir í nýju hlut­hafa­bréfi að þrálát verðbólga og dvínandi væntingar um vaxtalækkanir hafi sett mark sitt á inn­lenda fjár­mála­markaði á fyrri hluta ársins.

Hann telur lík­legt að stýri­vextir haldist háir lengur en áður var gert ráð fyrir, bæði hér á landi og er­lendis, þar sem seðla­bankar séu varfærnir í að snúa við peninga­stefnu sinni.

Jón bendir á að háir vextir hafi mis­munandi áhrif á þjóðfélags­hópa, yngri kynslóðir beri þyngri byrðar vegna hærri vaxta­greiðslna af húsnæðislánum, á meðan eldri kynslóðir njóti ávinnings af hærri inn­lánsvöxtum.

„Þetta háa vaxta­stig bitnar hvað mest á yngri kynslóðum í formi hárra vaxta­gjalda af húsnæðislánum á meðan eldri kynslóðir, sem skulda al­mennt minna og eiga meiri­hluta inn­lána, njóta ávinnings í formi hærri vaxta­tekna. Birtist það hvað best í þeirri stað­reynd að síðan 2021 hafa vaxta­tekjur heimilanna meira en tvöfaldast. Þannig hefur neyslu­geta hjá stórum hluta fólks aukist eftir því sem vextir hafa hækkað, þvert á mark­mið Seðla­bankans um að slá á neyslu með sínum að­gerðum,” skrifar Jón Sigurðs­son.

Vill meiri framsýni hjá Seðla­bankanum

Vaxta­stefnan hafi jafn­framt leitt til styrkingar krónunnar, sem Seðla­bankinn hafi reynt að vega upp með reglu­legum gjald­eyris­kaupum.

Jón segir að aðlögun krónunnar sé óum­flýjan­leg og hvetur líf­eyris­sjóði til að nýta sterkt gengi til er­lendra fjár­festinga.

For­stjórinn gagn­rýnir að peninga­stefnan sé „komin í ógöngur“ og beri keim af nálgun sem var við lýði fyrir um 20 árum, þrátt fyrir breytt efna­hags­um­hverfi. Hann segir það ekki ósigur að breyta um stefnu þegar aðstæður kalli á það.

„Það væri óskandi að Seðla­bankinn myndi sýna meiri framsýni, eins og ég hef marg­oft kallað eftir, og horfast í augu við að þessi nálgun á viðfangs­efnið er komin í ógöngur. Stefnan í dag minnir um margt á þá stefnu sem fram­fylgt var fyrir um 20 árum síðan þrátt fyrir að efna­hags­um­hverfið hafi tekið miklum breytingum,” skrifar Jón.

Jón lýsir einnig áhyggjum af mikilli hækkun veiði­gjalda sem samþykkt var fyrir sumar.

Hann segir að slík skatta­hækkun á skömmum tíma geti haft sam­bæri­leg neikvæð áhrif og tvöföldun inn­viða­gjalds á farþega skemmti­ferða­skipa á síðasta kjörtíma­bili, sem hafi leitt til af­bókana og sam­dráttar í komu skipa.

Í lok bréfsins hvetur Jón stjórn­völd til að tryggja at­vinnulífinu skýra langtímasýn um reglu­verk, skatt­lagningu og inn­viða­fjár­festingu.

Hann varar við að miklar breytingar á skatta­um­hverfi og auðlinda­gjöldum skapi óvissu sem dragi úr fjár­festingu og verðmæta­sköpun til lengri tíma.