Þórður Már Jóhannesson hefur ákveðið að draga til baka framboð sitt í stjórn Festi. Þetta tilkynnti Þórður í eldræðu á aðalfundi félagsins rétt í þessu en stjórnarkjör fer nú fram.

Tilnefningarnefnd Festar hafði lagt til í byrjun febrúar að Þórður Már tæki sæti í stjórn en í rökstuðningi nefndarinnar kom fram að hann hefði þekkingu og reynslu af rekstri og virkri fjárhagsskipan, væri langtímafjárfestir í Festi og þekki félagið vel. Félag í eigu Þórðar Más, Brekka Retail, væri þá meðal 20 stærstu hluthafa félagsins.

Skömmu síðar var þó greint frá því að tveir stærstu hluthafarnir, sem fara samanlagt með tæplega fjórðungshlut í félaginu, væru ósáttir með tilnefningu Þórðar Más. LSR, stærsti hluthafi Festar, lýsti yfir vonbrigðum með störf tilnefningarnefndar og Brú Lífeyrissjóður, næst stærsti hluthafinn, sagðist mótfallinn því að hann tæki aftur sæti í stjórn. Ekki fengust frekari skýringarþegar Viðskiptablaðið leitaði til þeirra.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hélt Þórður Már ræðu fyrir hluthafa nú fyrir hádegi þar sem hann gagnrýndi vinnubrögð LSR og Brúar lífeyrissjóðs harðlega. Einkafjárfestar sem voru á staðnum yfirgáfu fundinn eftir ræðuna.

Þórður Már lét af störfum sem stjórnarformaður í Festi í janúar 2022 en hann hafði þá setið í stjórn frá árinu 2018.

Sjö gáfu kost á sér til setu í stjórn félagsins, þar af fjórir sem þegar áttu sæti í stjórn. Einu konurnar, sem þegar áttu sæti í stjórn, voru sjálfkjörnar í stjórn félagsins með hliðsjón af lagaákvæðum um kynjakvóta.

Magnús Júlíusson, sem tók sæti í stjórn í júlí 2022, gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og því var eitt sæti laust. Auk Þórðar sóttust Guðjón Auðunsson, fráfarandi forstjóri Reita, og Gylfi Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, eftir sæti.

Fréttin hefur verið uppfærð. Viðskiptablaðið fjallaði um ræðu Þórðar Más í annarri frétt sem lesendur geta nálgast hér.