Play boðaði í síðustu viku grundvallarbreytingu á viðskiptalíkani sínu frá og með miðju næsta ári. Breytingin felur í sér að áfangastöðum í Norður-Ameríku og Norður-Evrópu verður fækkað frá og með miðju næsta ári. Á hinn bóginn verði áætlun félagsins til Suður-Evrópu efld.

Í tilkynningu Play til Kauphallarinnar kom jafnframt fram að uppfærð afkomuáætlun gefi vísbendingar um að rekstrarafkoma félagsins verði verri en á síðasta ári, ólíkt því sem spáð hafði verið fyrir um.

Fjárhagsstaða félagsins sé þó áfram sterk og ekki sé talin þörf á auknu fjármagni til rekstarins á næstunni.

„Forstjóri Play hefur tilkynnt að ekki sé þörf á að afla nýs fjármagns eins og staðan er núna. Sögulega séð tryggja evrópsk flugfélög sér fjármagn fyrir erfiða vetrartímann, sérstaklega ef merki eru um að lausafjárstaðan stefni fyrir neðan sársaukamörk.

Við þurfum að bíða eftir uppgjöri þriðja ársfjórðung félagsins og hvernig það spáir fyrir um reksturinn í vetur,“ segir Hans Jørgen Elnæs, norskur fluggreinandi og ráðgjafi á flugmarkaði.

Hans telur að það sé gagnlegra að beina sjónum að fjórða ársfjórðungi og fyrsta ársfjórðungi næsta árs til að meta hvort félagið þurfi á auknu fjármagni að halda.

Play birtir uppgjör þriðja ársfjórðungs eftir lokun markaða í dag.

„Félagið hefur nú þegar góða mynd af niðurstöðum þriðja ársfjórðungs. Ef nauðsynlegt hefði verið að senda út afkomuviðvörun vegna fjórðungsins, hefði Play nú þegar upplýst markaðinn, enda skráð félag.

Ég tel að þegar horft er til fjárhagsstöðu Play og framtíð flugfélagsins, sé gagnlegra að skoða þróun horfa fyrir fjórða ársfjórðung og fyrsta ársfjórðungs næsta árs. Þessir tveir fjórðungar, sem eru þeir erfiðustu á árinu fyrir flugfélög, munu ráða því hvort félagið þurfi á auknu fjármagni að halda.“

Lausafjárstaða Play var 51,4 milljónir dala í lok annars ársfjórðungs, eða sem nemur sjö milljörðum króna. Félagið réðst í hlutafjáraukningu á fjórðungnum, nánar tiltekið í apríl, þegar félagið sótti 4,6 milljarða króna á áskriftarverðinu 4,5 krónur á hlut.

Í heildina hafa fjárfestar lagt Play til 17 milljarða króna í hlutafjárútboðum.

Nánar er fjallað um Play í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið blaðið hér og fréttina í heild hér.