Nýsköpunarfélagið Atmonia, sem þróar umhverfisvænar aðferðir til framleiðslu ammoníaks úr lofti og vatni, var rekið með 13,4 milljóna króna tapi árið 2024, samanborið við 31 milljón króna tap árið 2023. Frá árinu 2020 nemur uppsafnað tap félagsins 130 milljónum króna.
Tekjur félagsins, sem er í rannsóknar- og þróunarstarfsemi, eru nær eingöngu í formi styrkja, sem námu 98 milljónum króna í fyrra og 186 milljónum króna árið 2023. Laun og launatengd gjöld voru stærsti kostnaðarliðurinn en þau námu 99 milljónum króna árið 2024 og 185 milljónum árið áður.
Í ársreikningi Atmonia segir að áframhaldandi rekstrarhæfi hjá félaginu byggi á því að stjórnendur nái að tryggja frekari fjármögnun, annað hvort í formi hlutfjáraukningar eða styrkja. Rekstraráætlun stjórnenda til næstu 12 mánaða geri ráð fyrir að félagið hafi nægt fjármagn til að standa straum af kostnaði.
Bókfærðar eignir í lok árs 2024 námu 312 milljónum. Skuldir námu 145 milljónum og eigið fé nam 167 milljónum, þar af var hlutafé 773 þúsund, yfirverðsreikningur hlutafjár 294 milljónir og bundið eigið fé 238 milljónir en óráðstafað eigið fé var neikvætt um 366 milljónir.
Stærstu hluthafarnir eru stofnendurnir Egill Skúlason með 22% hlut, Helga Dögg Flosadóttir með 16% hlut og Arnar Sveinbjörnsson með 12% hlut. Eyrir Ventures fer þá með 14% hlut. Aðrir hluthafar, þar á meðal Háskóli Íslands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands, eiga innan við 10% hlut hver.
Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 13. ágúst 2025.