Umræðan um orkuskort með tilheyrandi hækkunum á orkuverði hefur verið að aukast hér á landi. Sviðsmynd sem hafði verið varað við í nokkur ár rættist í fyrra en raforkukerfið var þá komið að þolmörkum.
Afleiðingarnar virðast byrjaðar að koma fram þegar kemur að verðmyndun, í hið minnsta á ákveðnum sviðum. Samkvæmt gögnum frá Landsneti um jöfnunarorkuverð, þ.e. verð á orku sem Landsnet kaupir fyrir hönd fyrirtækja til að stilla saman raforkuframleiðslu og raforkuþörf á hverjum tíma, hefur verðið verið að hækka.
Fyrir árið 2022 hafði Landsnet aldrei greitt meira en fimmtán þúsund krónur á megavattstund (kr/mwst). Í dag er staðan sú að Landsnet hefur í þrígang þurft að greiða meira en 35 þúsund kr/ mwst, sem er um sexfalt hærra verð en heimilin greiða. Þá eru hæstu verð umfram 15 þúsund kr/mwst, sem þekktist ekki áður, orðin fasti.
Einar Snorri Einarsson, forstöðumaður hjá Landsneti, segir erfitt að segja til um orsakir verðbreytinga á jöfnunarorku en vissulega hafi verið slæmt vatnsár og skerðingar í fyrra.
„Það jafnaði sig þegar á leið en hefur verið að hækka aðeins það sem af er þessu ári, sérstaklega í byrjun árs og svo lækkar það í sumar. Þetta eru hærri verð samt að meðaltali heldur en við höfum verið að sjá, ef horft er á tímabilið 2010 til 2019.“
Sé horft aftur til ársins 2005 sjáist að verð á jöfnunarorku hafi verið nokkuð stöðugt að hækka. Ómögulegt sé þó að segja hvort staðan sem komi upp í fyrra verði viðvarandi. Engu að síður sé ljóst að landið sé að stefna í aflskort.
„Það eru líkur á því að ef það breytist ekki eitthvað á framboðshliðinni þá verði aflskorturinn viðvarandi, en þar sem orkumarkaðurinn á Íslandi er ekki gagnsær þá er erfitt að sjá beinar afleiðingar í orkuverðum frá degi til dags.“
Nánar er fjallað um málið í Orku og Iðnaði, sérblaði Viðskiptablaðsins sem kom út á miðviðkudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.