Íslendingar hafa veðjað tugum milljóna króna á alþingiskosningarnar sem haldnar verða 30. nóvember næstkomandi, samkvæmt talsmönnum veðbankanna Epicbet og Coolbet.

Veðbankinn Epicbet hefur frá byrjun talið Kristrúnu Frostadóttur líklegasta til að verða næsti forsætisráðherra. Stuðullinn á Kristrúnu var 2,5 fyrir rúmum mánuði síðan, sem nemur 40% líkum, en er nú kominn í 3,00, sem nemur þriðjungs líkum.

Þorgerður Katrín hefur sótt í sig veðrið og er nú með stuðulinn 3,60, sem nemur 28% líkum. Til samanburðar var stuðullinn á að Þorgerður yrði næsti forsætisráðherra 8,00 fyrir rúmum mánuði síðan, og var hún þá talin mun ólíklegri en bæði Sigmundur og Bjarni.

„Þorgerður Katrín virðist vera í oddasæti hér við myndun ríkisstjórnar og með auknu fylgi Viðreisnar hefur stuðullinn á hana lækkað mikið. Þá hefur Kristrún Frostadóttir ekki falið áhuga sinn að verða fjármálaráðherra, sem hefur jákvæð áhrif á líkur Þorgerðar að verða næsti forsætisráðherra.

Sigmundur Davíð var talinn líklegur í upphafi en vegna þess hve margir flokkar hafa útilokað samstarf við flokkinn hefur stuðullinn á Sigmund hækkað. Svipaða sögu má segja af Bjarna í Sjálfstæðisflokknum,“ segir Daði Laxdal Gautason hjá Epicbet.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.