Það gæti orðið þrautin þyngri fyrir Suður-Afríku að komast af hinum alræmda gráa lista FATF yfir ríki þar sem peningaþvætti er talið þrífast, segir fráfarandi bankastjóri eins stærsta banka landsins, NedBank.

„Miðað við þann hægagang sem hefur einkennt rannsóknir og saksókn slíkra mála held ég að það verði mjög erfitt fyrir okkur að komast af listanum 2025,“ var haft eftir Mike Brown í fréttamiðlinum Bloomberg.

Afríkulandið var formlega sett á listann í febrúar í fyrra og því gefinn frestur út janúar á næsta ári til að bæta úr því sem talið var ábótavant.

Brown segir hins vegar erlenda lánveitendur hafa verið að framkvæma sérstakar viðbótarkannanir fyrir fjárfestingar tengdar Suður-Afríku allt frá árinu 2016 þegar áðurnefndir vankantar í tengslum við peningaþvætti hafi komist á allra vitorð.