Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljar fjárfestingafélags, áður Skeljungs, benti á að engar öryggisbirgðir af olíu séu hér á landi þrátt fyfir að 99% af samgöngum séu olíuknúnar á uppgjörsfundi Skeljar í morgun.
„Það er aðeins að kvikna á perunni hjá Íslendingum og íslenskum stjórnvöldum varðandi öryggisbirgðir. Maður furðar sig á því að svokallað [Þjóðar]öryggisráð Íslands hafi aldrei pælt í því að það er ekki til einn lítri af öryggisbirgðum fyrir kerfið. Þegar við horfum til þess að 99% af öllum flutningum á landi og í lofti og sjó eru drifin áfram af olíu. Þetta er aðalafl og varaafl. Það þarf ekki nema þrjú skip að klikka frá Noregi og þá er landið olíulaust. Það eru náttúrlega aðstæður sem er ekki hægt að una við. En menn eru aðeins farnir að kíkja á það og þá mun sjást að það er nauðsynlegt að hafa þessa góðu innviði í landinu," sagði Jón Ásgeir á fundinum í tengslum við dótturfélagið Gallon sem heldur utan um olíubirgðar félagsins. Olíusala Skeljar fer nú fram í gegnum dótturfélögin Orkuna og Skeljung.
Sjá einnig: „Við erum ekki hlutabréfasjóður“
Þjóðaröryggi í tengslum við orku, hrávörur og matvæli er til umræðu hjá stjórnvöldum um alla Evrópu eftir innrás Rússa inn í Úkraínu enda flest ríki álfunnar mjög háð rússneskri olíu og gasi. Ríkisstjórnin og Þjóðaröryggisráð hafa gefið út að þessi mál séu öll til skoðunar hér á landi í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.
Sjá einnig: Ríkið reisi ekki kornhlöður
Fleiri hafa talað á sömu nótum og Jón Ásgeir. Eldur Ólafsson, jarðfræðingur og forstjóri gullnámufélagsins AEX Gold, kallaði nýlega eftir því að stjórnvöld mótuðu sér skýrari stefnu þegar kemur að hrávörum og þjóðaröryggi í viðtali við Viðskiptablaðið. „Ég myndi vilja sjá ríkið gera áhættumat og velta upp þeirri spurningu hvort ríkið ætti að kaupa hrávöru sem eins konar tryggingu til að verja okkur gegn áföllum og hækkandi verðum sem hefur bein áhrif á verðlag á Íslandi. Ég geri ráð fyrir því að Þjóðaröryggisráð og ríkistjórnin séu með skýrt plan þegar það kemur að nauðsynlegri hrávöru," sagði Eldur.