Þrotabú Harrow House ehf. hefur krafist nauðungarsölu á Klapparstíg 35 í Reykjavík vegna 20 milljón króna skuldar Jóns Ó. Ragnarssonar, samkvæmt Lögbirtingarblaði.
Allt hlutafé Harrow House, sem rak veitingastaðinn Primo að Þingholtsstræti 1 í Reykjavík fyrir gjaldþrot, var í eigu Valdimars Jónssonar sem er sonur Jóns.
Athafnamaðurinn Jón Ragnarsson var dæmdur árið 2022 til að greiða þrotabúi Harrow House um 13 milljónir króna. Í dómi héraðsdóms kom fram að félagið hefði á tveggja ára tímabili millifært 9,8 milljónir króna á bankareikning Jóns.
Millifærslurnar voru bókaðar í bókhaldi Harrow house sem kröfur á hendur Jóni án frekari skýringar.
Í dómnum segir einnig að Jón hafi tekið út vörur og þjónustu fyrir um tæplega eina milljón en þar að auki var eldri krafa á hendur Jóni í bókhaldi félagsins upp á rúmlega 2 milljónir króna.
Jón hélt því fram fyrir dómi að greiðslur Harrow House hafi verið hluti af leigugreiðslum félagsins til Hótel Valhallar sem greiddar hafi verið beint til hans að beiðni Hótel Valhallar.
Jón var lengi vel kenndur við Hótel Valhöll á Þingvöllum sem hann erfði frá foreldrum sínum.
Vísir fjallaði ítarlega um Jón og Harrow House árið 2022 og er hægt að lesa meira um málið hér.