Nova var skráð í Kauphöllina í júní að undangengnu 8,7 milljarða króna almennu hlutafjárútboði þar sem fleiri en 5 þúsund nýir hluthafar bættust við hluthafahópinn.
Útboðsgengið í frumútboðinu var 5,11 krónur á hlut. Frá skráningu hefur hlutabréfaverð Nova aldrei náð yfir útboðsgengið og stendur nú í 4,02 krónum eftir meira en 20% lækkun. Markaðsvirði Nova nam 19,5 milljörðum í frumútboðinu en hefur síðan lækkað um fjóra milljarða.
Hugh Short, stjórnarformaður Nova, var spurður í viðtali við Viðskiptablaðið á dögunum út í þróun hlutabréfaverðs frá skráningu og hvort stækkun frumútboðsins spili þar inn í. Hugh sagðist líta svo á að óvissa í heimshagkerfinu spili stærstan þátt í lækkun Nova.
„Bandaríski hlutabréfamarkaðurinn hefur lækkað um ríflega 30%. Markaðir um allan heim finna nú fyrir þrýstingi. Þó að ég telji íslenska hagkerfið einangrað að vissu leyti, þá fylgir það engu að síður þróun á bandaríska og evrópska markaðnum. Stigmagnandi stríð í Úkraínu er einnig áhættuþáttur fyrir fjárfesta. Í ljósi þessa kemur lækkun á gengi Nova mér ekki á óvart.“
Þá telur Hugh að margir fjárfestar séu að velta fyrir sér rekstrarhorfum Nova til framtíðar í ljósi nýlegra vendinga á íslenska fjarskiptamarkaðnum, þar á meðal sölu Nova og Sýnar á óvirkum innviðum til Digital Bridge og sölu Símans á Mílu til Ardian. Með tímanum og hverju uppgjöri öðlist fjárfestar meiri þekkingu á Nova. „Ég hef ekki áhyggjur, ég er langtímafjárfestir.
Ég tel að það séu töluverð vaxtartækifæri fyrir Nova. Okkar samkeppnisforskot er að Nova er lóðrétt samþétt fjarskiptaneti sínu sem er mjög öflugt. Við höfum og munum áfram fjárfesta töluverðum fjármunum í dreifikerfið. Það er ástæðan fyrir því að við teljum Nova vera svo frábært fyrirtæki, þ.e. þar sem við höfum skuldbundið okkur til lengri tíma að eiga, stjórna og fjárfesta í fjarskiptanetinu.“
Viðtalið við Hugh Short má finna í heild sinni hér. Viðtalið birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 20. október 2022.