Anton Kotyakov, vinnumálaráðherra Rússlands, segir að þjóðin þurfi að finna tvær milljónir nýrra starfsmanna til að fylla upp í þær lausu stöður sem munu myndast af fólki sem fer bráðum á eftirlaun.
Á vef Bloomberg er vísað í fund sem ráðherrann átti með Vladimír Pútín Rússlandsforseta í gær.
„Við þurfum að bæta inn 10,9 milljónum starfsmanna inn í hagkerfið fyrir 2030. Rúmlega 800 þúsund lausar stöður munu myndast þar sem um 10,1 milljón manna mun ná eftirlaunaaldri,“ sagði Kotyakov á fundinum sem sýndur var í rússnesku sjónvarpi.
Pútín hefur þegar varað við því að íbúafækkun í Rússlandi ógni pólitískri og efnahagslegri framtíð landsins. Ríkisstjórnin hefur þegar varið milljörðum dala í verkefni sem hafa það markmið að auka fæðingartíðni, eins og greiðslur til kvenna sem eiga fleiri börn.
Atvinnuleysi í Rússlandi hefur aldrei verið lægra en það er nú í 2,2%. Stríðið í Úkraínu hefur einnig aukið skort á vinnuafli og er ekki ljóst hvernig Rússar munu finna fólk til að mæta þessari vaxandi eftirspurn.