Viðskiptavinir áskorendabankans indó eru orðnir yfir eitt þúsund talsins. Indó fékk starfsleyfi sem sparisjóður í febrúar síðastliðnum og opnaði fyrir lokuðum hópi prófara sex mánuðum síðar.
Í tilkynningu segir indó að í hverri viku er nýjum viðskiptavinum á sérstökum biðlista boðið að stofna reikning í indó. Allra fyrstu viðskiptavinir indó skráðu sig á biðlistann fyrir tæpum fjórum árum, en listinn telur nú yfir 7.000 manns.
„Við erum ótrúlega þakklátir þessum frábæru indóum sem komin eru til okkar og líka þeim sem sýna okkur biðlund eftir að geta stofnað reikning á næstu vikum. Við finnum mikið traust og stuðning við að byggja upp gegnsæja, sanngjarna og skemmtilega bankaþjónustu. Án viðskiptavina okkar væri ekkert indó til,” segja Haukur Skúlason og Tryggvi Björn Davíðsson, stofnendur indó.
Indó vill bjóða viðskiptavinum að taka virkan þátt í vöruþróun bankans en viðskiptavinir geta m.a. lagt inn hugmyndir og gefið öðrum hugmyndum atkvæði á heimasíðu indó. Bankinn hefur ekki enn þá gefið út hvenær hann opnar formlega fyrir alla en allir skráðir á biðlista fá boð fyrir formlega opnun.