Verulegra breytinga er að marka í neytendahegðun meðal bandarískra flugfarþega eftir heimsfaraldur.

Fyrir faraldur snerist allt um að bjóða upp á sem hagstæðust verð og ná til sín sem mestum farþegafjölda en að faraldri loknum hefur samkeppni milli félaganna að mestu snúist um að skera sig úr með því að bjóða upp á framúrskarandi flugupplifun.

Þessi þróun hefur reynst stærstu flugfélögunum vestanhafs happadrjúg, en til marks um það stóðu tvö félög, Delta og United, undir nærri 85% af hagnaði bandaríska flugiðnaðarins á fyrstu níu mánuðum þessa árs.

Í frétt Wall Street Journal um málið er bent á að fyrir vikið hafi lággjaldaflugfélög átt í vök að verjast og í því samhengi bent á að Spirit Airlines hafi nýverið sótt um greiðsluskjól.

Á meðan blómstra flugfélög sem eru með viðskiptafarrými. Orð sem Glen Hauenstein, stjórnarformaður Delta, lét nýverið falla fanga stemninguna sem ríkir þessa stundina á flugmarkaði:

„Því meira sem þú borgar, því meira færðu.“