Formaður Kennarasambandsins sendi viðsemjendum sínum tóninn á baráttufundi kennara. Samband íslenskra sveitarfélaga svaraði fyrir sig með því að benda á að síðastliðinn áratug hefðu kjarabætur á opinberum markaði verið meiri en á almennum markaði og kennarar væru þar engin undantekning.
Ekkert hefur verið fundað í kjaradeilu kennara við sveitarfélögin og ríkið síðan fyrir helgi og virðist deilan vera í hnút.
Verkfall í MR á mánudaginn
Kennarar tíu skólum víðsvegar um landið hafa verið í verkfalli síðan 29. október. Þar af eru kennarar þremur grunnskólum í verkfalli til 22. nóvember verði ekki samið fyrir þann tíma. Verkföll í fjórum leikskólum eru ótímabundin en verkfall kennara í Framhaldsskóla Suðurlands er til 20. desember, sem og verkfall kennara í Tónlistarskóla Ísafjarðar. Þá mun verkfall kennara í Menntaskólanum í Reykjavík hefjast 18. nóvember en það mun standa til 20. desember verði ekki samið.
Harðorður í Háskólabíói
Tóninn í kennurum hefur harðnað eftir því sem á hefur liðið, eins og kom í ljós á baráttufundi þeirra í Háskólabíói fyrir viku.
„Við munum ekki hvika frá markmiði okkar, við munum ná fram jöfnun launa,” sagði Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands á fundinum. „Það er fullkomlega ljóst að ef það á að takast að semja geta stjórnmálamenn ekki falið sig á bakvið starfsfólk sitt í nefndunum. Það er kominn tími á að þeir hysji upp um sig buxurnar, fóðri fólkið sitt við samningsborðið núna, það er löngu, löngu tímabært. Það er nefnilega þannig að Einar Þorsteinsson borgarstjóri er sannarlega aðili að kjaradeilunni, sem yfirmaður allra kennara í Reykjavík. Stígðu nú fram Einar og sannaðu afsökunarbeiðni þína til kennara.”
„Enginn bananaklúbbur“
Í kjaraviðræðunum hafa kennarar bent á samkomulag, sem gert var árið 2016 milli opinberra launagreiðenda og bandalaga stéttarfélaga um breytingar á skipan lífeyrismála. Hefur Magnús Þór sagt að ári síðar hafi lífeyrisréttindi launþega á almennum og opinberum vinnumarkaði verið jöfnuð. Hins vegar hafi í samkomulaginu líka verið kveðið á um jöfnun launa milli markaða. Það hafi átt að taka sex til tíu ár en enn hefði ekki náðst samkomulag um útfærslu á því atriði.
„Það er orðið löggilt svar hjá opinberum launagreiðendum að verkefnið sé óleysanlegt. Þvílíka fokking þvælan,” sagði Magnús Þór í Háskólabíói. „Ef samkomulag eins og þetta er ekki einu sinni pappírsins virði er samfélagið okkar komið á alvarlegan stað. Loforð ríkisvalds og sveitarfélaga innantóm og til þess eins fallin að koma til móts við sjálf sig. Kennarasamband Íslands er enginn bananaklúbbur, sem kinkar bara kolli þegar farið er gegn hagsmunum okkar.
Eftir samtöl við félagsfólk settum við fram skýrt markmið 16. janúar á þessu ári um verkefnið um jöfnun launa. Frá því hefur ekki verið hvikað þó að launanefnd sveitarfélaganna hafi þurft smá lestraraðstoð frá Félagsdómi til að sætta sig við að það var markmið okkar í rauninni.”
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.