Gjaldheimta af ökutækjum mun taka töluverðum breytingum um áramótin verði frumvarp um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja að lögum í haust líkt og stefnt er að. Með lögunum kemur kílómetragjald í stað olíu- og bensíngjalda, sem nú eru greidd við kaup á jarðefnaeldsneyti en slík gjöld verða felld brott.
Hagfræðingar eru flestir sammála um að áformin gætu haft áhrif á vísitölu neysluverðs þar sem eldsneytisverð mun lækka verulega en að öllum líkindum mun kílómetragjaldið ekki leiða til hækkunar þar sem það er ekki eyrnamerkt vegaframkvæmdum.
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, sagði þó á blaðamannafundi peningastefnunefndar í gær að nefndin telji að gjaldið muni ekki hafa veruleg áhrif á vísitöluna þar sem gjöld muni hækka á móti. Hann sagði þó útfærslu ríkisstjórnarinnar á gjaldinu og hvernig Hagstofan muni reikna það skipta máli í því samhengi.
Í áformum ríkisstjórnarinnar sem birt voru í samráðsgátt í sumar er gert ráð fyrir að kolefnisgjald verði hækkað á móti kílómetragjaldinu „til að viðhalda hvata til orkuskipta.“
Áform ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir að tekjur af ökutækjum og eldsneyti eftir breytinguna verði 1,5% af vergri landsframleiðslu á árinu 2025 og 1,7% af VLF árið 2027.
Samkvæmt útreikningum greiningardeildar Arion banka er hins vegar ljóst að ef ríkið ætlar sér að ná þessum markmiðum þarf kolefnisgjaldið að öllum líkindum að þrefaldast.
Áskrifendur geta lesið umfjöllun Viðskiptablaðsins hér en þar er meðal annars farið yfir útreikninga greiningardeildar Arion banka um hvernig gjöld þurfa að hækka svo áform ríkisstjórnarinnar gangi eftir.