Linde, stærsta iðnargasfyrirtæki heims, tilkynnti í gærkvöldi um áform um afskráningu úr kauphöllinni í Frankfurt en félagið telur að tvískráning þess í Þýskalandi og í Bandaríkjunum hafi haft neikvæð áhrif á hluthafa þess. Í umfjöllun Financial Times segir að afskráning Linde yrði högg á orðspor Frankfurt sem alþjóðleg fjármálamiðstöð.

Linde er stærsta fyrirtækið í þýsku Dax-vísitölunni, sem nær utan um hlutabréf 40 af stærstu félögum Frankfurt-kauphallarinnar. Markaðsvirði Linde, sem sérhæfir sig í framleiðslu og dreifingu iðnaðar- og lyfjagass, nemur 138 milljörðum dala.

Linde lýsti því að helstu vandræðin við skráningu á þýska markaðinn tengdust reglum um 10% hámarksvigt staks fyrirtækis í vísitölunni. Sökum stærðar fyrirtækisins fer markaðsvirði þess reglulega yfir 10% af heildarvirði Dax fyrirtækjanna sem neyðir vísitölusjóði sem fylgja vísitölunni að selja bréf í Linde. Slíkar reglur væru ekki að finna í Bandaríkjunum og þar væri einnig betra jafnvægi á milli félaga innan vísitala.

Linde var stofnað í Þýskalandi en fór á markað í Bandaríkjunum þegar félagið sameinaðist bandaríska samkeppnisaðila sínum Prexair árið 2018. Síðan þá hafa höfuðstöðvar fyrirtækisins verið í breska bænum Woking.

Linde áætlar að afskráningin úr Frankfurt-kauphöllinni fari farm í mars næstkomandi en hún er háð samþykki hluthafa.