Michael Mann, sendiherra Evrópusambandsins (ESB) á Íslandi, segir áhyggjur aðila á Íslandi af þriðja orkupakka ESB „algjörlega tilefnislausar“. Löggjöfin hafi mjög takmörkuð áhrif á Íslandi og feli engan veginn í sér fullveldisframsal til stofnana ESB. Þetta segir Mann í skoðanagrein í Fréttablaðinu.
Á undanförnum vikum hafa ákafar umræður verið til staðar á Íslandi - sem og í Noregi - um þriðja orkupakkann. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa sagt pakkann ógna íslenskum orkumarkaði og fela í sér fullveldisframsal til stofnana ESB, en áhyggjur þeirra eru áþekkar málflutningi vinstriflokka í Noregi. Mann segir umræðuna um ESB oft litast af misskilningi eða jafnvel vísvitandi rangfærslum.
„Megintilgangurinn með orkupakkanum er að veita neytendum ódýra og örugga orku með tilstilli markaðsafla og hann er ekki nokkur ógn við framkvæmd íslenskrar orkustefnu. Þar sem Ísland er eyja, einangruð frá öðrum orkumörkuðum, mun landið njóta víðtækra undanþága frá flestum helstu skyldum sem fylgja nýju löggjöfinni,“ segir Mann.
Eitt af því sem hefur vakið hvað mestar deilur í stjórnmálaumræðunni hér á landi er framtíðarhlutverk Samstarfsstofnunar evrópskra orkueftirlitsaðila (ACER). Umræðan um ACER hefur einkennst af ótta að Ísland neyðist til að framselja ákvarðanavald og fullveldi í orkumálum til Evrópustofnunar. Mann vísar þessu einnig á bug.
„Þar sem EES er tveggja stoða kerfi munu þær valdheimildir sem ACER fer með í aðildarríkjum ESB verða á vegum ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, á Íslandi.“ Helsta hlutverk ACER - og ESA í tilfelli orkumála EFTA-ríkjanna - er að hafa eftirlit með mörkuðum og getur aðeins beitt valdheimildum gagnvart eftirlitsstjórnvöldum ESB-ríkja í málum þar sem eftirlitsstjórnvöldum tveggja aðildarríkja tekst ekki að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Jafnframt eru heimildir ACER bundnar að mestu við grunnvirki sem ná yfir landamæri og eiga því ekki við á Íslandi á meðan slík grunnvirki eru ekki til staðar.
Sjá einnig: Mikil óvissa ef Alþingi segir nei
Mann bendir jafnframt á að jafnvel þótt sæstrengur til Bretlands yrði einhvern tíma að veruleika myndi það ekki tengja Ísland við innri orkumarkað ESB, þar sem Bretland gengur úr ESB frá og með mars á næsta ári.
Þá segir Mann að þriðji orkupakkinn - sem Íslandi er skylt að innleiða samkvæmt EES-samningnum - muni ekki hafa nein áhrif á frelsi stjórnvalda til að ákvarða orkusamsetningu Íslands. Sá réttur er tryggður í stofnsáttmála Evrópusambandsins og er hluti af EES-samningnum. Raunar eigi aðeins örfáar reglur við um Ísland, þar á meðal ákvæði um neytendavernd, aukið gagnsæi samninga og rétturinn til að skipta um orkuveitu.
„Það er því verulega erfitt að skilja hvernig hægt er að halda því fram að þessar reglur skerði frelsi Íslendinga til að ákvarða samsetningu orkugjafa eða hvernig þær gætu á einhvern hátt verið óhagstæðar fyrir Ísland,“ segir Mann.
Skoðanagrein Manns er efnislega samhljóða fréttaskýringu Viðskiptablaðsins á þriðja orkupakka ESB og ACER, sem grundvallaðist á upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu. Jafnframt eru efnisatriði þess ámóta minnisblaði fyrrum framkvæmdastjóra ESA og útskýringum Henriks Bjørnebye, norsks sérfræðings á sviði orkuréttar, ESB-réttar og EES-réttar, á orkupakkanum og ACER.