Fossar fjárfestingarbanki halda Takk daginn sinn í tíunda sinn á morgun, fimmtudag. Að þessu sinni er það gert í þágu Einstakra barna. Steingrímur Arnar Finnsson, forstjóri Fossa, segir söfnunardaginn ávallt mikið tilhlökkunarefni meðal starfsfólks og samstarfsaðila enda hafi söfnunin reynst árangursrík og söfnunarféð komið í góðar þarfir hjá þeim mikilvægu aðilum samfélagsins sem hlotið hafi styrkinn frá því að hann var fyrst veittur árið 2015.

Á Takk deginum renna þóknunartekjur af verðbréfaviðskiptum í kauphöll auk beinna framlaga viðskiptavina og velunnara félagsins óskipt til söfnunarinnar.

„Hugmyndin að söfnuninni kom upphaflega fram hjá okkur starfsfólkinu snemma árs 2015 og í þróun hugmyndarinnar fengum við Kauphöllina (Nasdaq Iceland) til liðs við okkur auk uppgjörsfyrirtækisins T Plús, sem bæði fella sín gjöld niður á Takk deginum, ásamt því sem auglýsingastofan TVIST gefur þá vinnu sína sem tengist deginum.

Við leggjum alltaf mjög mikla vinnu í undirbúning og skipulag í aðdraganda söfnunardagsins þar sem við förum ítarlega yfir alla þá fjölmörgu aðila sem koma til greina vegna þeirra mjög mikilvægu samfélagsmála sem þau vinna að og þurfa svo sannarlega á frekari stuðningi að halda. Þess vegna getur verið mjög erfitt að velja og hafna í þessum efnum,“ segir Steingrímur, sem er einn af stofnendum Fossa árið 2015 og varð forstjóri bankans á síðasta ári.

Upphæðin vaxið hröðum skrefum

Eins og áður segir fór fyrsti Takk dagurinn fram í nóvember 2015 þegar söfnuðust alls 2,3 milljónir króna og hlaut Mæðrastyrksnefnd upphæðina í styrk það árið.

„Síðan þá hefur Takk dagurinn vaxið að umfangi ár frá ári líkt og félagið sjálft. En nú er svo komið að frá 2015 hafa rúmlega 114 milljónum króna verið úthlutað til stuðnings ýmsum góðum málefnum, svo sem hjá Barnaspítala Hringsins, Geðhjálp, Krafti og fleiri aðilum og á síðasta ári hlutu Krýsuvíkursamtökin afrakstur Takk dagsins, alls rúmar 24 milljónir króna,“ segir Steingrímur Arnar, sem kveðst afar ánægður með hve vel hefur tekist til á þessum mikilvæga söfnunardegi hingað til og hvernig unnt hefur verið að veita sífellt hærri upphæðum til stuðnings góðu málefni.

Einstök börn

Eins og áður er getið hljóta Einstök börn, sem er stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða sjaldgæf heilkenni, afrakstur söfnunarinnar á Takk deginum á fimmtudaginn.

Starfsemi samtakanna hefur aukist jafnt og þétt að umfangi á undanförnum árum samfara aukinni þörf. Nú eru nær átta hundruð fjölskyldur og aðstandendur barna í félaginu, sem byggir starfsemi sína eingöngu á frjálsum framlögum og sjálfboðavinnu félagsfólks.

Fjölskyldur undir miklu álagi

Til starfseminnar njóta Einstök börn framlags sjálfboðaliða í félaginu sem styðja við bak fjölskyldna alvarlega veikra barna. Samtökin bjóða aðstandendum einnig upp á ráðgjöf og viðtöl hjá ýmsum sérfræðingum í heilbrigðiskerfinu auk aðstoðar og leiðbeiningar þegar kemur að ósk um aðstoð í kerfinu svo nokkuð sé nefnt, en öll þjónusta samtakanna er veitt félagsfólki að kostnaðarlausu.

Takk dagurinn — styrkveitingar frá 2015

Ár            Málefni Upphæð 
2015 Mæðrastyrksnefnd            2.300.000 
2016 Barnaspítali Hringsins 4.000.000 
2017 Kraftur   6.800.000 
2018 Ég á bara eitt líf / Bergið Headspace            8.200.000 
2019 Rjóðrið  11.100.000 
2020 Geðhjálp               12.600.000 
2021 Jafningjasetur Reykjadals                21.600.000 
2022 Píeta samtökin   23.325.000 
2023 Krýsuvík meðferðarheimili              24.100.000 
Alls 114.025.000