Tíminn er að renna út fyrir fjölmörg ríki til að ganga frá við­skipta­samningum við Bandaríkin áður en nýjar tolla­heimildir taka gildi.

Sam­kvæmt Wall Street Journal hefur Hvíta húsið látið í ljós að ekki standi til að fram­lengja frestinn að nýju.

Seint á miðviku­dagskvöldi náðist sam­komu­lag við Suður-Kóreu sem felur í sér að landið sæti 15% tollum, líkt og áður hefur verið samið um við Japan og Evrópu­sam­bandið. Þessir tollar munu ná til suður­kóreskra bif­reiða og hafði það þegar áhrif á markaði þar sem hluta­bréf í Hyundai og Kia lækkuðu.

Sam­kvæmt við­skiptaráðherra Bandaríkjanna, Howard Lutnick, náðust einnig samningar við Tæland, Kambódíu og Pakistan.

Hins vegar virðist sam­komu­lag við Kanada vera ólík­legt, þar sem Trump sagði að stuðningur Kanada við stofnun palestínsks ríkis gerði það „mjög erfitt“ að ná sam­komu­lagi um við­skipta­mál.

Ind­land og Brasilía sæta háum tollum

Trump til­kynnti á mið­viku­dag að 25% tollar yrðu lagðir á vörur frá Ind­landi. Auk þess verður 50% tollur lagður á inn­flutning frá Brasilíu, sem er enn hærra hlut­fall en áður hafði verið kynnt.

Á næstu dögum mun áfrýjunar­dómstóll í Bandaríkjunum taka fyrir mál sem snýr að lög­mæti um­fangs­mikilla tolla­að­gerða for­setans.

Þrátt fyrir að málið sé enn óút­kljáð hafa dómstólar heimilað að tollarnir haldist í gildi þar til úr­skurður liggur fyrir.

Þrátt fyrir aukna óvissu á alþjóða­vísu brugðust bandarískir hluta­bréfa­markaðir með hressi­legri hækkun:

Nas­daq Composite hækkaði um meira en 1% og náði sögu­legu há­marki, knúið áfram af sterkri af­komu Micros­oft og Meta Plat­forms.

S&P 500 náði einnig nýjum hæðum eftir tæp­lega 1% hækkun í dag en fjár­festar bíða einnig eftir af­komu­upp­gjöri frá App­le og Amazon síðar í dag.

Kopar­verð féll um meira en 20% í dag sem er mesta dagslækkun frá upp­hafi mælinga á sjöunda ára­tugnum.

Trump hafði til­kynnt 50% toll á unnar kopar­vörur, þótt hrákopar sjálfur sé undanþeginn.

Ávöxtun bandarískra ríkis­skulda­bréfa lækkaði lítil­lega eftir að Fed-stjórinn Jerome Powell gaf ekki skýrar vís­bendingar um mögu­lega vaxtalækkun í septem­ber.

Hluta­bréfa­markaðir utan Bandaríkjanna voru mis­vísandi sam­kvæmt WSJ.

Lækkanir sáust á mörkuðum í Suður-Kóreu og Ind­landi, á meðan Japan og flestir evrópskir markaðir hækkuðu.