Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 2,8% í tæplega 800 milljóna króna veltu frá opnun Kauphallarinnar í morgun. Amaroq Minerals leiðir hækkanir en gengi málmleitarfélagsins hefur hækkað um 6,7% í fyrstu viðskiptum.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 3,3% í gær og íslenski hlutabréfamarkaðurinn náði þar með að uppfylla skilgreininguna á bjarnamarkaði þar sem vísitalan hafði við lokun Kauphallarinnar í gær lækkað um meira en 20% frá nýlegum toppi í febrúar síðastliðnum.

Hækkanir í Kauphöllinni í morgun má sennilega rekja til þess að hlutabréfamarkaðir víða um heim hafa rétt aðeins úr kútnum í dag eftir umtalsverðar lækkanir síðustu daga. Talsverðar hækkanir voru í Japan og Kína, og Europe Stoxx 600 vísitalan hefur hækkað um 1,3% það sem af er degi.

Sjö félög aðalmarkaðar Kauphallarinnar hafa hækkað um tvö prósent eða meira í dag. Gengi Amaroq hefur hækkað mest eða um 6,7% og stendur nú í 126 krónum á hlut. Hlutabréf Amaroq eru enn tæplega 40% lægra en þegar gengi félagsins fór hæst upp í 209 krónur 14. janúar síðastliðinn.

Þá hefur hlutabréfaverð Alvotech og Icelandair hækkað um meira en 5% í morgun. Gengi Alvotech stendur nú í 1.160 krónum á hlut og Icelandair 1,075 krónum.

Þá hefur gengi Oculis, JBT Marels, Sjóvá, Ölgerðarinnar og Festi einnig hækkað um meira en 2%.