Ekkert lát er á söluþrýstingi íslenskra hlutabréfa sem héldu áfram að lækka í fyrstu viðskiptum í dag. Úrvalsvísitalan OMX15 hefur lækkað um 3,08% í fyrstu viðskiptum dagsins og endurspeglar þar með neikvæða stemningu fjárfesta gagnvart þróun markaða, bæði hér heima og erlendis.
Hlutabréfaverð PLAY leiðir lækkanir er gengi flugfélagsins hefur farið niður um rúm 6% í örviðskiptum og stendur gengið í 0,74 krónum.
Samhliða því hefur hlutabréfaverð Icelandair lækkað um rúm 4% og er gengið komið undir eina krónu á ný.
Hlutabréf JBT, Marel og Amaroq hafa lækkað um tæp 4% í lítilli veltu.
Athygli vekur að Alvotech og Oculis lækka bæði í fyrstu viðskiptum en félögin tvö eru undanskilin tollum Trumps. Íslensk lyf og lækningavörur lenda ekki í neinum tollum samkvæmt útreikningum bandaríkjastjórnar.
Undir þá skilgreiningu falla bæði lyf framleidd af Alvotech og Oculis, vörur á borð við sáraumbúðirnar sem Kerecis framleiðir, stoðtæki Össurar og svefnrannsóknatæki Nox Medical.
Gengi Oculis hefur engu að síður lækkað um 3,5% í morgun á meðan gengi Aclotech hefur lækkað um 1,6%. Gengi Oculis stendur í 2.200 krónum þegar þetta er skrifað á meðan gengi Alvotech stendur í 1.195 krónum.
Heildarvelta um hálf ellefu leytið var 1,1 milljarður.