Af­gangur af við­skipta­jöfnuði á þriðja árs­fjórðungi í fyrra nam 3,8% af lands­fram­leiðslu sem er um helmingi minni en á sama fjórðungi árið 2023.

Í Peninga­málum Seðla­banka Ís­lands segir að minnkandi af­gang megi einkum rekja til viðsnúnings á jöfnuði frumþátta­tekna.

Af­gangurinn var jafn­framt nokkru minni en áætlað var í nóvember­spá bankans en frávikið skýrist af minni af­gangi á þjónustujöfnuði og óhagstæðari þróun frumþátta­tekna vegna betri af­komu ál- og lyfja­fyrir­tækja í eigu er­lendra aðila.

Áætlað er að halli á við­skipta­jöfnuði hafi verið 2,3% í fyrra eða um 1,4 pró­sentum meiri en gert var ráð fyrir í nóvember.

Þar vegur þyngst meiri halli á vöru- og þjónustujöfnuði vegna kröftugs inn­flutnings fjár­festingar­vara á fjórða árs­fjórðungi.

Karen Ás­laug Vignis­dóttir, aðal­hag­fræðingur Seðla­bankans, sagði á blaða­manna­fundi í morgun að þennan halla megi einkum rekja til fjár­festingar gagna­vera í ýmsum tölvu­búnaði.

„Hvað varðar þessa auknu fjár­festingu þá jókst inn­flutningur á fjár­festinga­vörum 64% á fjórða árs­fjórðungi sem er ein mesta aukning á einum árs­fjórðungi frá upp­hafi mælinga. Þetta er þá að breyta tals­vert okkar áætlunum um um­svif í lok síðasta árs og á næsta ári hvað varðar aukin fjár­festinga­um­svif,“ sagði Karen.

Þarna er þó ekki um að ræða ein­hver hag­vaxtaráhrif þar sem inn­flutningurinn vegur upp á móti aukinni fjár­festingu. Karen sagði þessar fjár­festingar einnig vera að hafa áhrif í ár sem leiðir til tölu­vert meiri halla í ár heldur en áður var spáð, eða um 3%.

Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá í nóvember í fyrra ákvað atNorth að stækka gagna­ver sín í Reykja­nes­bæ og á Akur­eyri.

Úr glærukynningu Karenar á fundinum í morgun.
Úr glærukynningu Karenar á fundinum í morgun.

Heildar­fjár­festing atNorth nemur 41 milljarði króna en við bætist fjár­festing við­skipta­vina fyrir­tækisins í tölvu­búnaði sem nemur nálægt 300 milljörðum króna.

Í peninga­málum Seðla­bankans segir að þó að horfur séu á 3% halla í ár er gert ráð fyrir að við­skipta­hallinn minnki á ný á seinni hluta spátímans þegar dregur úr inn­flutningi gagna­vera „og að þá verði vöru- og þjónustujöfnuður nálægt jafn­vægi.“

Á sama tíma drógust flestir undir­liðir út­flutnings saman á milli ára þrátt fyrir að ferðaþjónustan náði vopnum sínum undir lok árs.

„Þjónustuút­flutningur dróst saman um 6% milli ára sem er heldur meira en við höfðum gert ráð fyrir. Það voru þó vís­bendingar um kröftugan fjórða árs­fjórðung í ferðaþjónustu þar sem komum er­lendra ferða­manna fjölgaði um 6% og það eru vís­bendingar um bætta nýtingu hvað varðar flugsæti og gistingu,“ sagði Karen.

Á sömu sveif leggst óhagstæðari þróun á frumþátta­tekju­jöfnuði. Sömu þættir hafa áhrif í ár þar sem gert er ráð fyrir meiri halla á vöru­skipta­jöfnuði og frumþátta­tekju­jöfnuði vegna horfa um betri af­komu ál- og lyfja­fyrir­tækja.