Japanski bílaframleiðandinn Toyota ætlar sér að endurkaupa meira en fimm milljarða dala af hlutabréfum sem eru nú í eigu japanskra banka og tryggingafélaga. Ákvörðun fyrirtækisins er sögð vera hluti af áætlun til að auka hagkvæmni.

Toyota mun þá kaupa 290 milljón hluti af Mitsubishi UFJ Financial Group, Sumimoto Mitsui Financial Group, MS&AD Insurance Group Holdings og Tokio Marine Holdings. Þá mun Toyota einnig selja sín bréf í fjármálafyrirtækjunum fjórum.

Samkvæmt fréttaflutningi WSJ sagði Toyota í maí að fyrirtækið ætlaði sér að kaupa til baka allt að 1 billjón (Y) hluta fyrir lok apríl 2025.

Japanska fjármálaeftirlitið hefur þrýst á fyrirtæki til að draga úr hlut sínum í öðrum skráðum japönskum fyrirtækjum til að bæta stjórnarhætti fyrirtækja. Talsmenn þessarar stefnu segja að bankar og vátryggingafélög sem eiga hlut í bílaframleiðendum geti til dæmis ekki mótmælt slæmum stjórnunarákvörðunum af ótta við að missa útlán sín eða viðskiptavini.