Íslandsbanki hagnaðist um 10,8 milljarða króna á fyrri helmingi ársins samanborið við 14,7 milljarða hagnað á fyrri helmingi síðasta árs. Hagnaðarsamdrátturinn á milli ára er fyrst og fremst vegna einskiptisliða á síðasta ári en ljóst er að bankinn þarf í auknum mæli að treysta á grunnrekstur sinn á komandi misserum.
Að sögn Birnu Einarsdóttur bankastjóra Íslandsbanka er bankinn vel undir það búinn að reiða frekar á grunnrekstur bankans. „Við höfum fækkað mikið útibúum og erum að breyta ýmsu í tæknihliðinni til að ná fram ákveðnum sparnaði. Það eru þessi stóru verkefni sem eru að skila mestu í því en einnig fjölmörg lítil verkefni sem við erum að vinna að til að lækka kostnað og einnig auka tekjur,“ segir Birna.
Hún bætir því við að bankinn er einnig vel búinn undir vinnu við afnám hafta en hluti af samkomulagi bankans við Glitni felst í að bankinn lækki eigið fé frá 28,3% niður í 23%.
VB Sjónvarp ræddi við Birnu.