Donald Trump og helstu ráðgjafar hans eru að ganga frá um 100 forsetatilskipunum sem hann hyggst undirrita á fyrstu dögum sínum í embætti, sem hefst í dag.
Nýkjörni forsetinn ætlar sér að flýta fyrir innleiðingu á stefnu sinni.
Fyrstu skref Trumps, sem hefur heitið því að vera „einvaldur“ á fyrsta degi annars kjörtímabils síns, munu fela í sér að hefta för innflytjenda inn í landið, hækka tolla og draga úr regluverki í ýmsum geirum, allt frá orku til rafmynta.
„Ég mun bregðast við af sögulegum hraða og krafti til að leysa öll vandamál sem þjóð okkar stendur frammi fyrir,“ sagði Trump á fjöldafundi í Washington á sunnudag en Financial Times greinir frá.
Trump og teymi hans hyggjast endurstilla stefnu Bandaríkjanna tafarlaust og byrja að efna loforðin sem hann gaf kjósendum í kosningabaráttunni, þar sem hann hét því að vinda ofan af stefnu Joe Bidens.
„Markmiðið er að valda losti og undrun svo andstæðingar þeirra missi áttir,“ segir Stephen Myrow, sem starfar hjá ráðgjafafyrirtækinu Beacon Policy Advisors og er fyrrverandi embættismaður í stjórn George W. Bush.
Trump og lið hans hafa varið fjórum árum í að undirbúa sig fyrir fyrsta daginn og fengið lögfræðinga til að hanna leiðir til að framkvæma stefnur sínar hratt og örugglega.
Meðal þeirra er yfirlýsing um neyðarástand á suðurlandamærunum, ráðstöfun alríkisfjár til að handtaka innflytjendur frá Mexíkó og takmarkanir á hælisleit. Hann hefur einnig lofað stærstu brottvísun í sögu Bandaríkjanna.
Á fjöldafundi í Capital One Arena í Washington sagði Trump: „Á morgun klukkan tólf lýkur fjórum löngum árum hnignunar Bandaríkjanna, og við byrjum glænýjan dag styrks, velmegunar, reisnar og stolts.“