Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að leggja á 25% tolla á vörur frá Japan og Suður Kóreu frá og með 1. ágúst. Þetta kemur fram í bréfi til ráðamanna beggja ríkja.

Bandarísk hlutabréf lækkuðu snarpt í kjölfarið. Helstu hlutabréfavísitölurnar þrjár hafa lækkað um 1%. Dow Jones er nú niður um 1,02 % S&P 500 um 0,86% og Nasdaq 0,88%.

Fyrr í dag hótaði Trump einnig viðbótartolli á þau ríki sem styðja BRICS-hópinn, en í honum eru Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka.

Gengi Bandaríkjadalsins styrktist og ávöxtun 10 ára ríkisskuldabréfa hækkaði í kjölfarið.

Færsla birtist á samfélagsvef Trump. „Sérhvert land sem stendur með and-Amerískum stefnum BRICS verður krafið um AUKA 10% toll. Engar undantekningar verða gerðar frá þessari stefnu,“ sagði Trump.

Færslan birtist á sama tíma og leiðtogar BRICS-ríkjanna hittust í Rio de Janeiro í Brasilíu. Um helgina sendi hópurinn frá sér yfirlýsingu þar sem hann lýsti „alvarlegum áhyggjum vegna aukinnar notkunar einhliða tolla og annarra viðskiptahindrana.“

Viðræður milli Bandaríkjanna og margra helstu viðskiptalanda eru áfram óljósar. Evrópusambandið stefnir á samkomulag í meginatriðum fyrir miðvikudag, þegar Trump hafði hótað að hækka tolla á innflutning frá ESB í 50%.