Liz Truss hefur sagt af sér sem forsætisráðherra Bretlands. Þetta tilkynnti hún rétt í þessu fyrir utan Downingstræti.
Truss fundaði áðan með Sir Graham Brady, formanni 1922 nefndar Íhaldsflokksins, en í nefndinni eru almennir þingmenn Íhaldsflokksins. Fimmtán þingmenn Íhaldsflokksins höfðu kallað opinberlega eftir því að hún myndi segja af sér.
Truss, sem fer í sögubækurnar sem skammlífasti forsætisráðherra í sögu Bretlands, tilkynnti að leiðtogakjör hjá flokknum verði haldið strax í næstu viku. Hún muni gegna embætti forsætisráðherra þangað til eftirmaður hennar verði kjörinn.
Samkvæmt veðmálasíðum er Rishi Sunak langlíklegastur til að taka við embættinu, en þar á eftir kemur Penny Mordaunt. Ben Wallace og Boris Johnson eru taldir heldur ólíklegri til að taka við.
Í kjölfar afsagnar Truss hefur Sir Keir Stamer, leiðtogi Verkamannaflokksins, krafist þess að boðið verði til kosninga. Sagði hann að Íhaldsflokkurinn hafi einfaldlega ekki lengur umboð til að stýra skútunni.
Leiðtogar annarra stjórnarandstöðuflokka hafa tekið undir kröfu Stamer, þar á meðal Ed Davey hjá Frjálslyndum demókrötum og Nicola Sturgeon hjá Skoska þjóðarflokknum.